Skip to main content

Ástrós Rut

Ástrós heiti ég og er óðfluga að nálgast þrítugt. Ég starfa sem þjónustufulltrúi hjá Garri heildverslun einnig er ég svo heppin að fá að vera formaður Krafts.

Ég hef þurft að hafa dálítið fyrir því að þroskast hratt og taka stórar ákvarðanir í mínu lífi síðustu ár. Einnig hef ég gengið í gegnum hugsanir, tilfinningar og áföll sem erfitt er að segja frá. Við Bjarki kynntumst þegar ég var 16 ára og var það ást við fyrstu sýn. Leiðir okkar lágu í sundur 19 ára en svo ráku örlögin okkur aftur saman þremur árum seinna. Þá var ekkert aftur snúið, æskuástin var mætt aftur á tröppurnar hjá mér og við vorum bæði staðráðin í því að verða gömul saman.

Lífið og þessi góða ákvörðun sem við tókum fór því í allt aðra átt þegar Bjarki fékk þær fréttir að hann væri með krabbamein árið 2012. Þá vorum við 24 og 25 ára óþroskaðir unglingar. Fyrst kom ofsahræðsla og svakalegur dofi, er hann að fara að deyja frá mér? Svo kom þessi frábæra tilfinning, við sigrumst á þessum saman og leysum þetta verkefni. Þannig sigruðum við hvert verkefnið á fætur öðru og buðum óttanum birginn, alveg þangað til Bjarki fékk þær fréttir árið 2015 að krabbameinið væri ólæknandi og myndi að lokum enda hans líf. Við vorum að tala um kannski nokkur ár í viðbót að mestu. Þetta er það erfiðasta sem við höfum gengið í gegnum, að sætta okkur við að þessi barátta myndi kannski tapast.

Því tókum við þessa ákvörðun: “VIÐ HJÓNIN SETTUM LÍFIÐ Í FYRSTA SÆTI OG VEIKINDIN Í ANNAÐ SÆTI”. Það að leyfa sjúkdómnum ekki að mergsjúga þig og taka allt frá þér, að ákveða að setja lífið í fyrsta sæti og hafa enn von er alveg brjálað frelsi. Við erum á mun betri stað í dag og ástfangnari en nokkurn tímann áður. Við giftum okkur síðasta sumar og héldum stóra veislu, fórum í drauma brúðkaupsferðina okkar til Maldive eyja og fengum síðan frábæra íbúð til að stofna heimili. Til að toppa þetta allt fór ég í tæknifrjóvgun í desember og komst að því um jólin að ég er barnshafandi. Við siglum því inn í árið 2018 þvílíkir sigurvegarar og hlökkum til að láta drauma okkar rætast. Lífið er núna, njótið þess!

Ég verð með Kraftssnappið í dag – Krafturcancer
#deilduþinnireynslu #lífiðernúna #krabbameinkemuröllumvið