Skip to main content

Birkir Már

Ég heiti Birkir Már og er 39 ára og starfa í ferðamannabransanum. Ég greindist í apríl 2017 með ristilkrabbamein sem var búið að dreifa sér í eitlana í kring. Þetta er vægast sagt búið að vera ömurlegt tímabil en ég fór í uppskurð og lyfjameðferð í kjölfarið. KRABBAMEIN ER BÆÐI ERFITT OG FLÓKIÐ.

Ég á þrjú börn og ég vissi ekkert hvernig ég ætlaði að tækla þetta með þeim og tók það mig allt að þrjá daga að segja þeim frá mínum veikindum. Önnur lyfjagjöfin tók strax mikið á mig og mér fannst lífið vera að hrynja. Á tímabili fékk ég móðir mína frá Akureyri til að hjúkra mér og hjálpa til á heimilinu. Að greinast með krabbamein reynir líka mikið á sambandið manns við makann og ég gekk í allar þær gildur sem var þó búið að vara mig við. Maður getur hreinlega ekki alltaf verið í stuði og ég náði aldrei að taka þetta á jákvæðninni. Við hjónin vorum heldur ekki nægilega dugleg að leita okkur stuðnings og jafningjafræðslu. Svona viku áður en ég hitti lækninn var ég alltaf í kvíðakasti og svaf ekkert í þrjá daga fyrir læknisheimsóknir. Ég var m.a. kominn á kvíðastillandi og svefnlyf. Ég var algjörlega orkulaus. Það sem hjálpaði mest var að hitta aðra sem höfðu greinst og hefur Kraftur og Ljósið bjargað geðheilsu minni. Fyrir það er ég ótrúlega þakklátur.

Deildu þinni reynslu og þinni mynd því krabbamein kemur öllum við eða deildu minni mynd og sögu #deilduþinnireynslu #krabbameinkemuröllumvið #lífiðernúna