Skip to main content

Edda Björk

Ég heiti Edda Björk og er 35 ára gömul. Ég er menntaður grunnskólakennari og starfaði sem slíkur í níu ár eða þar til ég veikist árið 2014. Í dag vinn ég hjá Björgunarskóla Slysavarnarfélagsins Landsbjargar við kennslu og annað tengt menntamálum björgunarsveitarfólks. Krabbamein bauð sér fyrst inn í líf mitt þegar ég var 18 ára en þá greindist ég með Hodgkins eitilfrumukrabbamein. Ég fór í lyfjameðferð við meininu og var útskrifuð eftir hana. Meinið kom aftur og við tóku lyfjameðferð og geislameðferð þar til ég var rúmlega tvítug en þá fékk ég brottfararspjaldið frá krabbameinsdeildinni.

Lífið hélt áfram við leik og störf, ég var að kenna, starfaði á fullum krafti í björgunarsveit og eignaðist dóttur árið 2011.

Árið 2014 bankaði þessi leiðinda gestur aftur á mínar dyr en þá greinist ég með brjóstakrabbamein. Við tók brjóstnám og lyfjameðferð í kjölfarið og útskrifaðist ég úr herlegheitunum rúmu ári síðar þ.e. árið 2015. Tannhjól lífsins fóru að snúast aftur án krabba. Ég byrjaði að vinna á fullu, var mikið úti að „leika“ á skíðum, fjallahjóli, götuhjólreiðum, fjallgöngum, gönguferðum og annarri útivist ásamt því að sinna fjölskyldunni. Mig langaði því ómögulega til dyra þegar krabbinn bankaði ansi fast á þær seinnipart árs 2016. En sumum gestum verður ekki vísað á dyr og staðan í dag er sú að ég er með 4. stigs brjóstakrabbamein sem er sagt ólæknandi. Meinvörp höfðu dreift sér í lungun, lifrina, eitla, hrygginn og nú síðast í höfuðið.

Þegar áskorun sem þessari er hent óumbeðið í mann er ekki í boði að gefast upp, enda er það orð ekki til í minni orðabók. Ég ætla að lifa – ég ætla að lifa með krabbameininu, ekki sem sjúklingur heldur sem einstaklingur með krabbamein. Ég ætla að halda áfram að njóta gæðastundanna með dóttur minni, mæta í vinnuna, sinna björgunarsveitarstörfum eftir minni bestu getu og stunda útivist af öllu tagi eins og heilsan leyfir mér. Lífið á nefnilega að snúast um að njóta en ekki að þjóta. Því segi ég: LÍFIÐ ER ÁSKORUN – NJÓTTU ÞESS.

Deildu þinni reynslu og þinni mynd því krabbamein kemur öllum við eða deildu minni mynd og sögu #deilduþinnireynslu #krabbameinkemuröllumvið #lífiðernúna