Skip to main content

#shareyourscar

By 11. janúar 2016mars 25th, 2024Fréttir

Við vorum að hrinda af stað átakinu #ShareYourScar. Átakið snýst um vitundarvakningu allra um ungt fólk og krabbamein, krabbamein er ekki tabú og kemur öllum við. Kraftur vill vekja almenna athygli á krabbameini en sér í lagi á krabbameini hjá ungu fólki en um 70 einstaklingar á aldrinum 18-40 ára að aldri greinast með krabbamein á hverju ári.

Kraftur vonast til að landsmenn allir taki þátt í átakinu en fólk getur tekið þátt með því að deila sínu öri og tala opinskátt um sína reynslu. Þeir sem ekki bera ör geta lagt átakinu lið með því að fara inn á www.kraftur.org og deila þeim myndum sem þar eru. Þeir sem bera ör vegna annarra ástæðna geta líka deilt sínu öri til að styðja við málefnið.

Við erum með ör en á lífi
Kraftur fékk tíu einstaklinga í lið með sér til að deila örum sínum sem þeir hafa hlotið af því að fá krabbamein. „Þessir hugrökku einstaklingar eru þeir fyrstu sem stíga fram og opinbera örin sem þeir hafa hlotið vegna krabbameins. Það er mikilvægt að fólk sé ófeimið við krabbamein og þori að stíga fram og segja með myndinni sinni ‘Jú ég er með ör en ég er á lífi. Örin eru ekkert til að skammast sín fyrir þau eru vitnisburður um sigra’. Um þetta snýst átakið okkar, segir Ragnheiður Davíðsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts.
Eins og fyrr greinir hvetur Kraftur landsmenn alla til að taka þátt. Kraftur er að deila myndum á Instagram, Facebook og Twitter síðu sinni og hvetur alla til að deila mynd af sínum örum og reynslu með #shareyourscar eða deila mynd frá Krafti og breyta líka forsíðumyndinni sinni á Facebook.  Bæði þeir sem greinst hafa með krabbamein sem og aðstandendur geta lagt málstaðnum lið með því að taka þátt í átakinu og vekja fólk til umhugsunar.