Skip to main content

Strákar þurfa líka að sækja sér stuðning

Fimmtudagskvöldið, 4. nóvember, hélt Kraftur strákastund þar sem karlmenn sem hafa orðið fyrir áhrifum af krabbameini komu saman, hlustuðu á aðra og deildu reynslu. Um 50 karlmenn á öllum aldri komu saman og nutu einlægrar stundar.

Matti Osvald, heilsufræðingur og markþjálfi Ljóssins og Þorri Snæbjörnsson, sálfræðingur Krafts og Krabbameinsfélagsins, héldu utan um stundina. Þeir sem komu og sögðu frá sinni reynslu voru Kári Kristján Kristjánsson, landsliðsmaður í handbolta, sem tvisvar hefur greinst með æxli í bakinu. Hannes Rúnar Hannesson sem sagði frá sinni reynslu en konan hans greindist nýverið með brjóstakrabbamein og Arnar Sveinn Geirsson sem missti móður sína ungur úr krabbameini og gróf tilfinningar sínar.

„Þetta var einstaklega einlægt kvöld þar sem strákar sem sögðu frá reynslu sinni opnuðu sig og strákarnir úr salnum komu með góðar og þarfar spurningar,”sagði Gísli Álfgeirsson, umsjónarmaður StrákaKrafts sem stóð fyrir viðburðinum.  Matti Osvald sem hélt utan um stundina var alveg sammála Gísla. „Ég er mjög ánægður með kvöldið. Tilgangurinn tókst algjörlega og það var geggjuð mæting. Tilgangurinn var skýr í mínum huga fyrir kvöldið það er að fá stráka á staðinn og hlusta á aðra hvernig þeir tækla þetta. Hlusta á hvað aðrir hafa farið í gegnum frá mismunandi sjónarhornum og hvetja stráka til að nota þá aðstoð og stuðning sem er í boði. Við strákar græðum alveg jafn mikið á því að ræða um svona hluti og líðan en við virðumst þurfa meira traust og jafnvel lengri tíma til að opna á það heldur en við sjáum oft hjá konum. Eins og Stebbi Jak sagði í sinni frábæru innkomu á milli laga: Ef þú kallar þá svarar einhver”.

Í lok kvöldsins komu einmitt Stebbi Jak og Hafþór og spiluðu þeir fyrir strákana og tóku smá uppistand með. Allir strákar sem komu fengu líka glaðning með sér heim þar sem í var að finna sokka frá Krabbameinsfélaginu, skeggvörur frá The Perfect Gentleman og Lífið er núna armband sem var sérstaklega perlað fyrir Strákastundina.

Strákastundin var í alla staði frábær viðburður og sögðu viðstaddir vera til í svona svipaðan viðburð aftur. Við þökkum öllum sérstaklega fyrir komuna, Perfect Gentleman og Krabbameinsfélaginu fyrir glaðninga fyrir strákana og Kex hostel fyrir að ljá okkur húsnæði og sýna okkur mikla gestrisni.

Hér má sjá myndir frá kvöldinu sem teknar voru af Antoni Brink