Neyðarsjóður Krafts var stofnaður á 15 ára afmæli Krafts þann 1.október 2014. Haldnir voru styrktartónleikar í Hörpunni þann 17.september 2014 þar sem safnað var í Neyðarsjóð Krafts og ágóðinn af þeim voru um 2 milljónir króna sem runnu beint í Neyðarsjóðinn. Auk þess barst sjóðnum myndarlegt framlag frá Ástu Hallgrímsdóttur, fyrrum formanni Krafts og ekkju Atla Thoroddsen sem lést úr krabbameini.

Á meðan á veikindum hans stóð hélt hann úti bloggi um veikindi sín sem síðar varð tekið saman í bókina Dagbók rokkstjörnu sem kom út árið 2009. Bókin var seld og var það ósk Ástu að ágóðinn rynni til Neyðarsjóðs Krafts. Á 15 ára afmæli Krafts ákvað stjórn félagsins að heiðra Ástu með að tilnefna hana verndara sjóðsins.

Neyðarsjóðnum er ætlað að styrkja ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og lent hefur í fjárhagslegum erfiðleikum vegna veikinda sinna. Neyðarsjóðnum er er ætlað að standa straum af kostnaði sem fellur utan greiðsluþátttöku sem og öðrum tekjumissi sem getur hlotist vegna veikinda viðkomandi.

Úthlutun

Veitt verður úr sjóðnum tvisvar á ári, í apríl og í nóvember. Umsóknarfrestur fyrir vorúthlutun er til og með 19. apríl en 1. október fyrir seinni úthlutun. Ekki er sótt um sérstaka upphæð heldur mun stjórn sjóðsins meta þörfina og ákveða styrkupphæð með tilliti til stöðu sjóðsins. Svar við umsóknum munu berast eigi síðar en sex vikum eftir að umsóknarfrestur rennur út.

Með styrkumsókn skal senda eftirtalin gögn:

a. Nýlegt læknisvottorð sem endurspeglar núverandi sjúkdómsgreiningu eða stöðu veikinda.
b. Skattaskýrsla síðustu tveggja almanaksára. Ef skattaskýrslur endurspegla ekki núverandi fjárhagsstöðu er mikilvægt að sýna fram á það með gögnum.
c. Reikningar fyrir tilgreindum kostnaði

Hægt er að fá aðstoð við öflun gagna og útfyllingu umsóknar hjá starfsmanni Krafts og félagsráðgjafa.