Skip to main content

Ása Nishanti Magnúsdóttir

„Maður er svo hræddur og því er svo gott að hafa einhvern sem er búinn að ganga í gegnum það sama og vita að nú sé allt í lagi.”

„Það var mikið sjokk að fá krabbamein og ég vissi ekki hvert ég ætti að leita. Ég var mjög heppin að hitta stelpu sem fékk nákvæmlega sama krabbamein og ég. Það var mjög gott að hitta hana og ég fann að þetta var stuðningur sem mig vantaði.

Það að fræðast meira um krabbameinið sem ég fékk í gegnum aðila sem hafði gengið í gegnum það sama hjálpaði mér að takast á við þetta. Ég fékk að vita hvernig hún upplifði einkennin og það var svo gott að geta borið saman bækur okkar. Á þessum tíma var ég búin að missa mömmu úr krabbameini og það gaf mér von að sjá þessa stelpu sem var búin með meðferðina og laus við krabbameinið.

Þegar Kraftur var í herferðinni „Krabbamein kemur öllum við“ þá fór ég að kynna mér betur hvað Kraftur hefði upp á að bjóða og sá að það var verið að auglýsa eftir stuðningsfulltrúum og ákvað að taka þátt. Ég er Stuðningsfulltrúi því mér finnst skipta máli að geta hjálpað manneskju sem er að fara í gegnum svona áfall og geta verið til staðar dag og nótt. Það getur hjálpað gríðarlega mikið að fá stuðning frá öðrum. Stuðningur frá heilbrigðisstarfsfólki er annars konar. Þessi reynsla hefur orðið til þess að ég er sterkari einstaklingur, öruggari og þroskaðri.”

Ása er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu