Skip to main content

Jóhanna Kristín Jónmundsdóttir

„Það hreinlega léttir alla tilveruna að vera í Stuðningsnetinu.“

„Mér fannst alltaf gott að hitta fólk sem hafði meiri og verri reynslu en ég. Ég var heppin með minn sjúkdóm og var ekkert þjáð en það kom mér samt mikið á óvart. Mér fannst gott að heyra hvernig öðrum hefði gengið en á sínum tíma hefði mér fundist gott að fá að tala einslega við einhvern með svipaða reynslu. Ég fékk þó að hitta fólk í hópum sem hafði ólíka reynslu af stóma og fannst gott að heyra hvað öðrum fannst og heyra hversu gott þeim fannst að fá stómann.

Jafningjastuðningur skiptir máli því oft er miklu betra að tala við einhvern sem hefur lent í þessu líka og skilur hvað maður er að ganga í gegnum. Maður getur ekki spurt sína nánustu því þeir vita ekki hvað maður er að tala um. Maður getur heldur ekki alltaf verið að íþyngja fólkinu sínu, þau eru oft miklu hræddari en maður sjálfur. Allir voru hræddir nema ég á sínum tíma.

Það hreinlega léttir alla tilveruna að vera í Stuðningsnetinu bæði að þyggja stuðning og veita hann. Maður þarf á því að halda að geta tjáð sig. Þetta á líklega við um fleiri sjúkdóma en krabbamein. Það er gott að geta talað við einhvern utanaðkomandi um þessi vandamál, fólkið manns hefur nægar áhyggjur af manni fyrir.“

Jóhanna Kristín er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu