Skip to main content

Kristín Þórsdóttir

„Það er svo dýrmætt að geta leitað stuðnings hjá einhverjum sem skilur mann.”

„Maðurinn minn greindist með heilaæxli árið 2006 sem þá var góðkynja en breyttist svo í illkynja. Svo greinist hann aftur 2015 og lést árið 2017. Eftir fyrstu greiningu þá vorum við svolítið ein. við vissum ekkert hvað var í boði og það var enginn að koma til okkar og benda okkur á hvar við gætum leitað okkur stuðnings og aðstoðar. Svo var mér sagt árið 2013 að það væri til Stuðningsnet. Þá ákvað ég að gerast stuðningsfulltrúi því ég vildi geta gefið það sem mig hafði vantað á sínum tíma.

Það er svo dýrmætt að geta leitað stuðnings hjá einhverjum sem skilur mann. Stuðningsnetið parar fólk saman sem hefur lent í svipuðum aðstæðum og erfiðileikum. Því það skiptir máli fyrir fólk að geta speglað sig í öðrum. Að maður upplifi sig ekki sem einu manneskjuna sem er að ganga í gegnum þetta.

Það að geta tekið upp símann og hringt í stuðningsfulltrúa sem er bundinn 100% trúnaði og gjörsamlega sagt allt við hann sem þig langar að segja er svakalega dýrmætt. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur að þú sért að særa einhvern eða manneskjan dæmi þig fyrir hugsanir þínar. Það eru t.d. alls kyns hugsanir sem maður telur kannski vera rangar hugsanir eða vitlausar hugsanir. En svo heyrirðu að viðkomandi hefur upplifað nákvæmlega það sama. Að geta sagt hlutina og viðkomandi skilur hvað þú ert að tala um og finnast maður ekki vera einn.

Þú getur ekki farið endalaust áfram á hnefanum og þá er svo ótrúlega mikilvægt að sýna þann styrk að leita sér stuðnings. Því það krefst gífurlegs styrks að viðurkenna að þú getir ekki gert þetta allt sjálfur og þú þurfir að fá hjálp og þurfir að fá aðstoð.”

Kristín er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu