Skip to main content

Salvör Sæmundsdóttir

„Stuðningsnetið er svo dýrmætt því maður tengir svo sterkt við þá sem hafa upplifað það sama” 

„Þegar maður hefur persónulega reynslu af krabbameini hvort sem maður er aðstandandi eða greindur þá skilur maður þetta einhvern veginn miklu betur. Eftir að ég missti systur mína úr krabbameini og ég vissi af einhverjum í kringum mig væri líka búinn að missa systkini þá leið mér eins og að viðkomandi skildi mig. Ég hafði þörf fyrir að tala við einhvern sem hefði gengið í gegnum það sama.

Stuðningsnetið er svo dýrmætt því maður tengir svo sterkt við þá sem hafa upplifað það sama, þó svo að maður sé ekki einu sinni að tala við þá. Bara að vita til þess að það séu fleiri sem hafa upplifað það sama og maður. Þó að það líði 10-15 ár þá er maður alltaf með þetta með sér einhvern veginn það er að reyna lifa með reynslunni, sorginni og söknuðinum.

Jafningjastuðningurinn er aðeins öðruvísi en að fara til sálfræðings. Það er ekki ójafnvægi, þetta eru bara tveir einstaklingar sem hafa lent í því sama. Það skapar vettvang til að geta rætt hlutina án þess að það sé endilega einhver tilgangur með samtalinu heldur bara að ræða saman. Það er svo mikilvægt að tala saman og ef ég veit að þú hefur upplifað svipaðan hlut og ég þá veit ég að þú skilur hvað ég er að segja. Ég tel það eitt það mikilvægasta. Það er gott ef fólk hefur þörf á því og vill geta rætt við einhvern með svipaða reynslu. Spegla sig í þeirri manneskju og hennar reynslu.

Á sínum tíma fékk ég ekki jafningjastuðning eins og er í boði í Stuðningsnetinu. Ég var bara 13 ára þegar systir mín greindist og það var enginn 13 ára í bekknum mínum sem hafði upplifað það sama. Þetta er allt annar pakki. Því er gott að finna einhvern annan sem veit hvað maður er að meina og finna að maður er ekki einn. Ég man eftir að hafa talað við konu sem hafði átt veika systur. Þrátt fyrir að ég var barn og hún fullorðin var gott að finna að maður var ekki einn í heiminum. Það er mikið álag að vera aðstandandi og systkini eiga það til að verða pínu útundan í svona ferli.“

Salvör er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu