Skip to main content

Get ég tryggt mig eftir að ég greinist með krabbamein ?

Líf- og sjúkdómatrygging

Það kann að vera of seint í rassinn gripið að líf- og sjúkdómatryggja sig eftir krabbameinsgreiningu. Engu að síður geta þeir sem greinst hafa með krabbamein keypt sér líf- og sjúkdómatryggingu með þeim fyrirvara að tryggingin gildi ekki ef viðkomandi greinist aftur með krabbamein. Tryggingin gildir eftir sem áður fyrir öllum öðrum sjúkdómum sem tilgreindir eru í skilmálunum. Það kunna þó að vera mismunandi skilmálar milli tryggingafélaga og því nauðsynlegt að kanna þá vel og vandlega.

Líftrygging er mikilvæg til þess að tryggja hag þeirra sem treysta á þig.  Aðstandendur þínir fá greiddar bætur ef þú fellur frá á tryggingartímanum. Engu máli skiptir hvort orsökin er slys eða sjúkdómur. Líftryggingabætur eru skattfrjálsar og verðtryggðar og eru greiddar út í einu lagi. Allir á aldrinum 18-69 ára geta sótt um líftryggingu og gildir hún til 70 ára aldurs. Börn frá fæðingu til 18 ára aldurs eru sjálfkrafa líftryggð með tryggingu foreldris.

Sjúkdómatrygging tryggir þér bætur ef þú greinist með einhvern þeirra sjúkdóma sem tryggingin nær til. Tryggingartaki ákveður tryggingafjárhæðina og komi til veikinda er hún greidd út í einu lagi. Bætur sjúkdómatrygginga eru skattfrjálsar og verðtryggðar. Allir á aldrinum 18-59 ára geta sótt um sjúkdómatryggingu og gildir hún til 70 ára aldurs. Sjúkdómum og slysum er skipt upp í fjóra flokka eftir eðli þeirra og tegund.

Flokkur 1: Krabbamein

Flokkur 2: Hjarta- og æðasjúkdómar

Flokkur 3: Tauga- og hrörnunarsjúkdómar

Flokkur 4: Aðrir alvarlegir sjúkdómar og slys

Aðeins er greitt einu sinni vegna sjúkdóms í hverjum flokki þrátt fyrir að sá sem tryggður er kynni að greinast með tvo sjúkdóma í sama flokki. Allir sem greinast með sjúkdóm og fá tryggingafé greitt úr sjúkdómatryggingu sem er með endurvakningarákvæði geta óskað eftir því að endurvekja trygginguna innan þriggja mánaða frá greiðslu, þá með þeim skilyrðum að sá tryggingaflokkur sem bætur voru greiddar út úr er undanskilinn.

Börn á aldrinum 3ja mánaða til 18 ára eru sjálfkrafa tryggð með tryggingu foreldris. Bótafjárhæð vegna hvers barns er 50% af tryggingafjárhæð foreldranna. Þó er hámarksfjárhæð á bótum fyrir hvert barn.

Get ég tryggt mig eftir krabbameinsgreiningu?

Allir geta sótt um líf- og sjúkdómatryggingu þó svo að þeir hafi fengið krabbamein. Í slíkum tilfellum er miðað við að a.m.k. fimm ár séu liðin frá lokum krabbameinsmeðferðar. Hver og ein umsókn er þá metin sérstaklega en það sem er skoðað er m.a. tegund krabbameins, hver meðferð var og bati. Ef umsókn er samþykkt þá er það oftast með þeim fyrirvara að krabbamein sé undanskilið í sjúkdómatryggingunni en í líftryggingum getur iðgjald tryggingarinnar hækkað.

MERKINGAR:

FINNUR ÞÚ EKKI ÞAÐ SEM ÞÚ ERT AÐ LEITA AÐ?

Senda okkur póst Messenger Senda okkur spurningu