1. Kjör stjórnar og verkaskipting

Kjör stjórnarformanns og stjórnar fer fram á aðalfundi félagsins. Á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund skal stjórnarformaður tilnefna varaformann, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda.

Varamenn stjórnar eru þrír og sitja að jafnaði stjórnarfundi en hafa ekki atkvæðisrétt þegar stjórnin er fullmönnuð.

Ef stjórnarmaður í aðalstjórn er ekki viðstaddur stjórnarfund, þar sem taka á afstöðu með eða á móti tillögu, kemur varamaður í hans stað. Ef fleiri en einn varamaður eru á stjórnarfundinum draga þeir númer (1, 2, 3) og sá sem velur númerið 1 skal hafa atkvæðisrétt í stað þess stjórnarmanns sem er fjarverandi.

2. Boðun stjórnarfunda og lögmæti ályktana stjórnar

Stjórnarformaður boðar til stjórnarfunda. Stjórnarformaður getur falið framkvæmdastjóra að boða til stjórnarfunda í sínu umboði. Stjórnin fundar mánaðarlega að undanskildum júlímánuði, þá er sumarfrí.

Stjórnarformaður sendir ítrekað á fundarboð minnst tveimur dögum fyrir stjórnarfund þar sem fram kemur dagskrá fundarins. Æskilegt er að boða forföll á stjórnarfundi eða aðra viðburði á vegum félagsins, ef svo ber undir.

Fundargögn skulu að jafnaði send stjórnarmönnum minnst tveimur dögum fyrir boðaðan fund. Framkvæmdastjóri leggur mál fyrir stjórnina og skal tilgreint hvort mál sé lagt fram til fróðleiks, umræðu eða samþykktar. Ef mál er lagt fram til samþykktar skal tillaga um ákvörðun stjórnar skýrt sett fram.

Stjórnarformaður getur einn boðað til aukafundar stjórnar. Það þarf hann að gera að lágmarki með tveggja daga fyrirvara og dagskrá fundarins þarf að liggja fyrir með tveggja daga fyrirvara hið minnsta.

Heimilt er að halda stjórnarfundi eða taka þátt í slíkum fundum með aðstoð rafrænna miðla. Stjórnarformaður getur krafist þess að fundur sé haldinn án rafrænna miðla en þarf þá að tilkynna það þegar boðað er til fundarins.

Framkvæmdastjóri á sæti á fundum stjórnar og hefur þar umræðu- og tillögurétt, nema stjórn ákveði annað í einstökum tilfellum. Stjórn skal þó koma saman einu sinni á ári án framkvæmdastjóra.

Stjórnarfundir eru ályktunarbærir ef meirihluti stjórnamanna er mættur eða varamenn þeirra. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum en falli atkvæði jöfn skal atkvæði formanns ráða úrslitum.

3. Fundargerðir

Ritari stjórnar ber ábyrgð á að fundargerðarbók sé færð. Sérhver stjórnarmaður getur krafist bókunar í fundargerð.

Fundargerð skal ávallt rituð svo fljótt sem kostur er eftir að fundi lýkur og send stjórnarmönnum. Endanleg fundargerð skal liggja fyrir a.m.k. tveimur dögum fyrir næsta stjórnarfund. Stjórnarmenn sem sitja fund auk framkvæmdastjóra skulu undirrita fundargerð.

Eftirfarandi atriði skulu koma fram í fundargerðum stjórnar:

 • Fundarstaður, fundardagsetning og fundartími.
 • Hverjir voru viðstaddir fundinn.
 • Hvort og þá hvenær utanaðkomandi aðilar koma inn á fundi og hvenær þeir fara út af fundum.
 • Dagskrá fundarins.
 • Upptalning á fundargögnum fundarins. Afrit af þeim skulu geymd með fundargerð.
 • Niðurstaða hvers liðar í fundardagskrá.
 • Hvort og hvers vegna stjórnarmaður, framkvæmdastjóri eða annar víkur af fundi í tengslum við tiltekið málefni og hvort viðkomandi hafði aðgang að gögnum málsins.

Fundargerðir stjórnar eru ekki birtar.

4. Skyldur stjórnar

Stjórnarformaður kemur fram fyrir hönd stjórnarinnar. Hann getur þó falið það öðrum stjórnarmönnum að einhverju eða öllu leyti.

Ef stjórnarformaður forfallast tekur varaformaður við störfum hans.

Stjórnarmeðlimir skipta með sér verkum um einstaka atburði og njóta til þess starfskrafta og stuðnings framkvæmdastjóra.

Stjórnarmenn skulu afla sér þekkingar á helstu þáttum í starfsemi Krafts og stjórn skal ávallt starfa í samræmi við tilgang Krafts sem kveðið er á í samþykktum / lögum félagsins.

Tilgangur félagsins er að gæta hagsmuna og stuðla að velferð ungs fólks sem fengið hefur krabbamein svo og aðstandenda. Þessum tilgangi hyggst félagið ná með því að:

 • Stuðla að því að sjúklingar sem greinast með krabbamein svo og aðstandendur fái aðhlynningu og andlegan og félagslegan stuðning.
 • Miðla upplýsingum um réttindi sjúklinga og aðstandenda.
 • Aðstoða unga krabbameinssjúklinga við að komast aftur út í lífið eftir meðferð og veita þeim upplýsingar um mögulega endurhæfingu og aðra þá aðstoð sem í boði er hverju sinni.
 • Miðla þeirri reynslu sem félagsmenn Krafts hafa öðlast í gegnum eigin veikindi.
 • Fræða almenning um hin ýmsu málefni sem snerta krabbameinssjúklinga og aðstandendur.

Stjórnarseta er ólaunuð en ekki er gert ráð fyrir að stjórnarmenn beri kostnað vegna stjórnarsetu sinnar. Bensín- og símakostnaður er ekki greiddur. Stjórnarmenn geta haft afnot af skrifstofu og síma Krafts auk þess sem þeir gera leitað til framkvæmdastjóra ef sækja þarf eða senda eitthvað vegna viðburða.

5. Starfsnefndir stjórnar

Stjórn getur með ákvörðun þess efnis skipað sérstakar starfsnefndir stjórnar til að undirbúa og/eða sjá um ákveðin mál. Í ákvörðun um slíka skipan skal koma fram markmið og helstu verkefni nefndar, fjöldi nefndarmanna, og tímarammi skipunar. Stjórn þarf að samþykkja tillögur starfsnefnda.

Stjórn skal setja starfsnefndum starfsreglur sem taka mið af ákvörðun stjórnar. Starfsnefndir skulu upplýsa stjórn um störf sín eins oft og þurfa þykir eða samkvæmt beiðni stjórnar.

Stjórn Krafts skal á aðalfundi kjósa þrjá einstaklinga til að annast styrkveitingar úr Neyðarsjóði Krafts. Stjórnin skal velja í úthlutunarnefnd einstaklinga sem hafa góða þekkingu á málefnum krabbameinsgreindra og fjölskyldna þeirra. Neyðarsjóðurinn skal setja sér starfsreglur um úthlutun úr sjóðnum sem stjórn Krafts samþykkir. Neyðarsjóðurinn starfar á ábyrgð stjórnar Krafts og skal stjórn félagsins hafa eftirlit með að Neyðarsjóðurinn starfi eftir þeim reglum sem um hann gilda.

6. Vanhæfisástæður

Stjórnarmaður er vanhæfur til meðferðar máls ef hann er aðili máls, fyrirsvarsmaður eða umboðsmaður aðila máls. Hann er einnig vanhæfur ef hann er eða hefur verið maki aðila máls eða er nákominn ættingi. Þá er stjórnarmaður einnig vanhæfur ef að öðru leyti eru fyrir hendi aðstæður sem eru til þess fallnar að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.

Stjórnarmaður skal hafa frumkvæði að því að upplýsa stjórnina um mögulegar vanhæfisástæður.

Stjórn, nema sá stjórnarmaður sem möguleg vanhæfnisástæða beinist að, tekur ákvörðun um hvort einstaka stjórnarmaður er vanhæfur við meðferð máls.

Stjórnarmaður sem telst vanhæfur skal víkja af fundi þegar það málefni, sem vanhæfi hans lýtur að, er til umræðu og afgreiðslu.

Sömu reglur og að framan greinir gilda um fundarsetu áheyrnarfulltrúa.

7. Framkvæmdastjóri

Stjórn Krafts ræður framkvæmdastjóra og gerir við hann ráðningarsamning. Ráðningarsamningur skal vera skriflegur og vistaður á öruggum stað á starfstöð félagsins.

Framkvæmdastjóri undirbýr fundi stjórnar ásamt stjórnarformanni félagsins.

Framkvæmdastjórinn ber ábyrgð á daglegum rekstri Krafts og fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki eru öðrum falin með landslögum, samþykktum / lögum félagsins eða ákvörðun stjórnar. Hinn daglegi rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Slíkar ráðstafanir getur framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild stjórnar nema ekki sé unnt að bíða ákvörðunar stjórnar án verulegs óhagræðis fyrir félagið. Í slíkum tilvikum skal stjórn tafarlaust tilkynnt um ráðstöfunina. Framkvæmdastjóra ber að sjá um að reksturinn sé í samræmi við lög, samþykktir / lög félagsins og ákvarðanir stjórnar. Framkvæmdastjóri ræður aðra starfsmenn Krafts og heyra þeir undir hann.

Framkvæmdastóri skal gera stjórn grein fyrir helstu atriðum í starfsemi félagsins.

Framkvæmdastjórinn er talsmaður Krafts um öll störf sem varða daglegan rekstur félagsins.

Stjórn skal árlega meta frammistöðu framkvæmdastjóra og skal stjórnarformaður gera framkvæmdastjóra grein fyrir mati stjórnar.

Vilji starfsmenn Krafts eða stjórnarmenn gera athugasemdir við störf framkvæmdastjóra ber að senda skriflegt erindi á stjórnarformann félagsins með málefnalegum athugasemdum sem skulu vel rökstuddar. Stjórnarformaður tekur málið fyrir á stjórnarfundi ef þörf er á.

8. Verkefni stjórnar

Stjórn Krafts hefur yfirumsjón með að starfsemi félagsins sé í samræmi við lög, reglugerðir og samþykktir / lög félagsins. Stjórnin skal einnig hafa með höndum almennt eftirlit með rekstri.

Stjórn mótar stefnu og skipulag félagsins og endurskoðar það árlega.

Stjórn skal árlega meta þróun félagsins með hliðsjón af markmiðum þess og stefnumótun.

Þá skal stjórnin annast ráðstafanir sem eru óvenjulegar eða mikils háttar og taka þær meðal annars til eftirfarandi ráðstafana:

 • Ráða framkvæmdastjóra, ákveða laun hans, ráðningarkjör og verksvið.
 • Sjá til þess að endurskoðaður ársreikningur og árskýrsla stjórnar liggi fyrir á tilsettum tíma.
 • Undirbúa og boða til aðalfundar.
 • Leggja fram tillögu um kjör endurskoðanda fyrir aðalfund.
 • Taka ákvarðanir um mikilvæg atriði í rekstri félagsins sem ekki rúmast innan heimilda framkvæmdastjóra, til dæmis um ný stöðugildi og nýjar áherslur í fjáröflunarleiðum.
 • Ákveða hver skuli taka sæti af hálfu Krafts í nefndum, stjórn félags eða annars staðar þar sem Kraftur fær rétt til slíkrar tilnefningar
 • Ákveða hverjir geti skuldbundið félagið og á hvaða hátt.

9. Gerð ársreiknings

Framkvæmdastjóri, í samstarfi við gjaldkera Krafts, lætur gera frumdrög að ársreikningi Krafts. Hann gerir jafnframt frumdrög að ársskýrslu stjórnarinnar.

Endurskoðandi endurskoðar ársuppgjör. Endanlegur ársreikningur og ársskýrsla eru kynnt fyrir stjórn.

Þegar stjórnin hefur farið yfir ársreikning Krafts og metið það svo að hann gefi rétta mynd af starfsemi Krafts og eignastöðu, undirritar stjórnin og framkvæmdastjóri endurskoðaðan ársreikning. Telji stjórn eða framkvæmdastjóri eitthvað á vanta skal aflað upplýsinga og skýringa áður en undirritun fer fram. Hafi stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri mótbárur fram að færa gegn ársreikningi skal hann gera grein fyrir því í áritun sinni.

Samþykktan ársreikning skal senda til ársreikningaskrár.

Ársskýrslur og reikninga skal leggja fyrir aðalfund til staðfestingar.

10. Trúnaður

Stjórnarmenn eru bundnir trúnaði um málefni Krafts sem og félagsmenn þess og önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu sem stjórnarmenn. Trúnaður helst þó stjórnarmenn láti af störfum.

11. Birting reglna

Reglur þessar skulu birtar á heimasíðu Krafts.

12. Breytingar á starfsreglum þessum

Til breytinga á starfsreglum þessum þarf samþykki meirihluta stjórnarinnar.

Samþykktar af stjórn 28.nóvember 2019