Ýmis þjónusta er til staðar fyrir fólk sem býr úti á landi og þarf að sækja þjónustu þar eða ferðast til Reykjavíkur sökum meðferðar. Því bendum við á eftirfarandi þjónustu:

NorðanKraftur er stuðningshópur fyrir ungt fólk á alsrinum 18-40 ára sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur.

NorðanKraftur er samstarfsverkefni Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk með krabbamein og aðstandendur og Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis. Hópurinn er starfræktur frá Akureyri.

Íbúðir Krabbameinsfélagsins eru átta og allar staðsettar á Rauðarárstíg 33 í Reykjavík. Þær eru ætlaðar fyrir sjúklinga og aðstandendur meðan á meðferð stendur. Landspítalinn annast rekstur og úthlutun íbúðanna. Sum verkalýðsfélög greiða fyrir dvöl félagsmanna sinna í íbúðunum. Einnig greiða flest krabbameinsfélög á landsbyggðinni fyrir fólk af sínu félagssvæði. Ef Landspítalinn sendir reikning heim til sjúklings fyrir dvölina í íbúðunum getur viðkomandi farið með reikninginn til krabbameinsfélags í sinni heimabyggð sem aðstoðar við að greiða reikninginn.

Sótt er um afnot af íbúðunum á móttöku Geisladeildar Landspítalans sími 543 6800.

Sjúkrahótel Landspítala er fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra sem þurfa vegna heilsu sinnar að dvelja fjarri heimabyggð vegna rannsókna eða meðferðar. Gestir sjúkrahótels þurfa að vera sjálfbjarga, geta komist fram úr rúmi og sinnt daglegum athöfnum svo sem að klæða sig, sinna persónulegu hreinlæti og salernisnotkun. Þeir þurfa að hafa lokið meðferð á legudeild og teljast í stöðugu líkamlegu og andlegu ástandi.

Krabbameinsfélagið

Krabbameinsfélagið rekur þjónustuskrifstofur víðsvegar á landsbyggðinni. Þar er veitt upplýsinga- og stuðningsþjónusta fyrir fólk sem greinist með krabbamein og aðstandendur. Þjónustan er fólk að kostnaðarlausu.

Þjónustuskrifstofur er að finna á: Ísafirði, Akureyri, Skagafirði, Reyðarfirði, Árnessýslu og Reykjanesi.

Að auki eru 22 svæðafélög víðsvegar um land og 7 stuðningshópar.