Ný lög tóku gildi þann 1. nóvember 2021 að einstaklingar og fyrirtæki eiga rétt á skattaafslætti frá skattskyldum tekjum vegna gjafa og framlaga til almannaheillafélaga. Það nýtist Krafti svo sannarlega til góða og er hvati fyrir einstaklinga og fyrirtæki að láta gott af sér leiða til samfélagsins. Þetta á bæði við um ef félagið er styrkt með mánaðarlegum greiðslum eða stökum styrk.

Hvernig virka lögin fyrir þig

Einstaklingar sem styrkja Kraft geta fengið skattaafslátt ef styrkupphæð er á bilinu 10.000 til 350.000 krónur. Styrkurinn kemur til lækkunar útsvars- og tekjuskattsstofns á almanaksári. Til dæmis ef einstaklingur með meðaltekjur greiðir 20 þúsund króna styrk til Krafts fær sá hinn sami skattaafslátt að fjárhæð 7.600 krónur og greiðir þannig í raun 12.400 fyrir 20.000 króna styrk til félagsins. Athugið að frádráttur er ekki millifæranlegur á milli hjóna og sambúðarfólk en hann getur verið alls 700.000 krónur en það ber að halda framlögum hvers einstaklings aðgreindum.

Fyrirtæki geta fengið skattaafslátt sem nemur allt að 1,5% af rekstrartekjum á því ári sem framlag eða gjöf er veitt. Sem dæmi ef fyrirtæki styrkir Kraft um eina milljón þá lækkar það tekjuskatt sinn um 200.000 krónur. Fyrirtækið greiðir þannig í raun 800.000 krónur fyrir eins milljón króna styrk til félagsins. Fyrirtæki þurfa að hafa kvittun sem sýnir fram á styrkinn til að fá skattafsláttinn.

Hvernig færðu skattaafsláttinn?

Á hverju almanaksári gefur Kraftur upp þá styrki sem einstaklingar og fyrirtæki leggja til félagsins. Viðkomandi styrktaraðili mun þá fá þá upphæð inn á skattaskýrslu sína. Eins og fyrr greinir þá á skattaafslátturinn bæði við um staka styrki og mánaðarlegt framlag einstaklinga. Þar sem nýju lögin tóku þó ekki gildi fyrr en 1. nóvember 2021 mun skattaafslátturinn 2021 einungis gilda um styrki sum urðu til eftir þann dag en í framtíðinni mun það eiga við um allt almanaksárið.

Þú getur hjálpað okkur að hjálpa öðrum

Kraftur er til staðar fyrir ungt fólk sem er að greinast með krabbamein og aðstandendur en um 70 ungir einstaklingar greinast með krabbamein á hverju ári og krabbamein hefur áhrif á fjölda margar aðstandendur. Kraftur starfar eingöngu vegna velvilja einstaklinga og fyrirtækja í landinu, þar sem félagið nýtur engra opinberra styrkja. Einstaklingar og fyrirtæki geta lagt Krafti lið með mánaðarlegum styrkjum eða með stökum styrkjum sem geta farið í almenna starfsemi félagsins eða sjóði eins og minningarsjóð eða neyðarsjóð Krafts.