Bæði aðstandendur og þeir sem greinast með krabbamein vilja umfram allt eðlileg samskipti. Það þarf til dæmis ekki alltaf að tala um krabbameinið og fólk getur orðið klaufalegt í orðavali og háttalagi þegar það hittir þann greinda eða náinn aðstandenda.
Hér koma nokkur heilræði frá öðrum aðstandendum:
- Þú skalt ekki segja ég veit hvernig þér líður því þó þú hafir gengið í gegnum svipaða reynslu þá veistu aldrei 100% hvernig manneskjunni líður. Miklu betra er að segja hreinlega ég veit ekki hvað ég á að segja og taka utan um viðkomandi.
- Ekki setja upp mæðu- eða sorgarsvip þegar þú hittir viðkomandi og ekki nota meðaumkunartón því það getur jafnvel leitt til þess að manneskjan einangri sig.
- Í staðinn fyrir að segja „hvernig hefurðu það?“ notaðu frekar „hvernig gengur?“.
- Gleymdu ekki að spyrja um líðan aðstandanda það er oftast bara spurt um líðan þess sem er veikur.
- Þú getur hjálpað mikið bara með því að koma með eitthvað matarkyns eða bakkelsi heim til fólks og skilja það eftir hjá því eða taka börnin í bíó, svo eitthvað sé nefnt. Óumbeðna hjálpin skiptir svo miklu máli.
- Ekki skamma börn og unglinga þó þau séu pirruð út í veikt foreldri eða löt við að hjálpa til. Þau eru enn í hlutverkum sínum sem börn og foreldrar eru enn bara mamma og pabbi þótt annað þeirra sé með krabbamein.
- Ekki hætta að tala um þín eigin vandamál eða líf. Stundum þurfa bæði sá veiki og aðstandandi að fá að tala um eitthvað allt annað en krabbameinið og það sem því fylgir.