Skip to main content

Hvernig er skimun fyrir leghálskrabbameini háttað?

Konur eru boðaðar í reglubundna skimun með boðsbréfi í bréfpósti en unnið er að því að boðsbréfin verði rafræn í náinni framtíð. Miðað er við að konum sé boðin skimun fyrir leghálskrabbameini á þriggja ára fresti á aldursbilinu 23-29 ára og á fimm ára fresti á aldursbilinu 30-65 ára. Konur á aldrinum 23-29 ára fara í hefðbundna frumurannsókn en ekki HPV frumskimun eins og konur á aldrinum 30-64 ára gera.

Ástæða þess að ekki er ennþá mælt með HPV frumskimun hjá konum yngri en 30 ára er hátt algengi HPV sýkinga í þessum aldurshópi. HPV frumskimun myndi valda aukinni tíðni falskt jákvæðra niðurstaðna og auka óþarfa eftirlit og meðferðir því ekki allar HPV sýkingar valda frumubreytingum. Um 90% allra HPV sýkinga hverfa á 2-3 árum.

Á næstu árum fjölgar konum sem hafa verið bólusettar fyrir HPV og þá er ekki ólíklegt að hægt verði að nýta HPV frumuskimun hjá konum yngri en 30 ára.

Konur sem hafa fengið boðsbréf í skimun og búa á höfuðborgarsvæðinu geta bókað sig á Mínum síðum á www.heilsuvera.is. Þegar búið er að skrá sig þar inn þá er farið inn í Bóka tíma, og svo bóka tíma á heilsugæslunni og þá kemur upp valmöguleikinn skimun fyrir leghálskrabbameini. Sem stendur boða konur á landsbyggðinni sig hjá heilsugæslunni sinni í gegnum síma en verið er að vinna að rafrænni lausn.

Konur jafnt á höfuðborgarsvæðinu sem og landsbyggðinni geta einnig pantað tíma í skimun fyrir leghálskrabbameini með símtali við þá heilsugæslustöð sem hentar best.

Konur sem hafa fengið boðsbréf eða liðin eru meira en 3 ár frá síðustu skimun eru hvattar til að bóka tíma. Konur sem fóru í skimun t.d. 2018 eiga að koma í skimun árið 2021 en eftir það verður farið eftir nýju skimunarleiðbeiningum.

MERKINGAR:

FINNUR ÞÚ EKKI ÞAÐ SEM ÞÚ ERT AÐ LEITA AÐ?

Senda okkur póst Messenger Senda okkur spurningu