Skip to main content

Hvernig get ég aðstoðað?

Eitt af því fyrsta sem aðstandendum dettur í hug þegar ástvinur greinist með krabbamein er hvað þeir geta sjálfir gert til að létta honum lífið. Sú aðstoð og stuðningur helgast auðvitað af hversu náinn þú ert viðkomandi. Ertu maki, skyldmenni, vinur, vinnufélagi eða kunningi?

Ertu náinn aðstandandi?

Byrjaðu á að bjóða fram aðstoð þína og stuðning. Hlustaðu eftir vilja viðkomandi en reyndu að taka ekki stjórnina. Þú skalt bjóðast til að fara með í læknisheimsóknir þar sem sjúklingur hefur ekki alltaf orku og einbeitingu til að meðtaka og muna allt sem sagt er. Þú getur tekið frumkvæðið til dæmis með því að sinna heimilisverkum og passa börnin. Passaðu upp á að ekki verði of mikill gestagangur því mikilvægt er að sjúklingur nái að hvíla sig inn á milli. Taktu að þér í samráði við viðkomandi að hafa samband við vinnuveitanda, stofnanir, spítala og aðra. Vertu góður hlustandi og oft getur verið betra að vera til staðar og sýna umhyggju með þögninni eða ef til vill með snertingu. Leyfðu hinum veika að eiga frumkvæðið.

Ef fleiri en einn eru í fjölskyldunni getur verið gott að skipta með sér verkum til dæmis að einn sjái um fjármálin, annar um heimilisstörfin, þriðji keyri viðkomandi í meðferðir og svo framvegis. Gættu þess að taka því ekki of persónulega ef hinn veiki sýnir þér ef til vill ekki mikinn kærleika og áhuga. Hann getur verið annars hugar og það er eðlilegt.

Ertu vinur?

Ekki forðast vin þinn þó hann sé með krabbamein. Hringdu í hann jafnvel þó að símtalið verði örstutt svo að hann átti sig á því að þér er ekki sama um hann. Þú getur líka sent honum skilaboð á samfélagsmiðlum. Farðu varlega í að segja reynslusögur annarra. Bjóddu fram aðstoð þína bæði til viðkomandi og náinna ættingja hans. Sýndu stuðning þinn í verki og bjóddu viðkomandi til dæmis með þér í bíó, partý, út í göngutúr og bíltúr. Um fram allt ekki umgangast viðkomandi alltaf eins og hann sé sjúklingur.

Ertu kunningi eða vinnufélagi?

Krabbamein snertir alla þá sem eiga samskipti við þann sem veikist. Þótt þú sért ekki náinn aðstandandi þá getur þú sýnt kærleika með því til dæmis að senda skilaboð á viðkomandi um að þú hugsir til hans. Sem vinnufélagi getur þú látið hann finna að hann þurfi ekki að hafa áhyggjur af vinnutengdum málum í þessum aðstæðum. Ef þú ert náinn samstarfsfélagi er gott að hafa samband við aðstandendur og bjóða fram aðstoð á einhvern hátt. Ef þið vinnufélagarnir hafið skipulagt einhverja viðburði eins og árshátíð, golfferð, óvissuferð eða annað ekki gleyma að bjóða viðkomandi þó þið vitið jafnvel að hann komist ekki. Fólki þykir alltaf vænt um að það sé munað eftir því.

MERKINGAR:

FINNUR ÞÚ EKKI ÞAÐ SEM ÞÚ ERT AÐ LEITA AÐ?

Senda okkur póst Messenger Senda okkur spurningu