Skip to main content

Hvernig get ég sýnt stuðning í verki?

Það er mikilvægt að þú styðjir vel við bakið á þeim sem er veikur. Þú þarft að hafa í huga þarfir hans og veita stuðning með eða án orða. Þú getur hjálpað til við að leita að upplýsingum og finna ráð ef svo ber undir. Snerting skiptir máli og að þú forðist ekki að koma við þann veika þar sem það getur valdið höfnunartilfinningu og óvissu. Þú getur boðið fram fjárhagsaðstoð eða hreinlega hjálpað til við þrif, að elda mat og passað börnin.
Best er að sýna stuðninginn í verki. Hversu oft höfum við sjálf ekki sagt „Ekki hika við að hafa samband ef eitthvað er eða ég get hjálpað þér“ en hversu oft höfum við fengið símtalið á móti „Geturðu farið út í búð fyrir mig, geturðu eldað fyrir mig, geturðu hjálpað mér að þrífa?“. Krabbameinsveikir eru stoltir og vilja vera sjálfstæðir alveg eins og við öll hin. En þeir þiggja oft hjálpina með þökkum þegar hún kemur óumbeðin. Svo mættu bara með skúringarfötuna á svæðið eða hringdu og segðu: “Ég er að koma og sækja börnin þín og fara með þau í sund.” Mundu samt að öll hjálp verður að sjálfsögðu að vera í samráði við þann krabbameinsveika og það er stutt bil á milli þess að vera hjálpsamur og stjórnsamur.

Hvað geta aðstandendur og vinir gert?

  • Það hjálpar ef einhver fer með í sem flestar læknisheimsóknir, því sjúklingur hefur ekki alltaf orku og einbeitingu til að meðtaka og muna allt sem sagt er.
  • Í krabbameinsmeðferð er sjúklingurinn undir miklu álagi og þreytist mjög auðveldlega og taka skal tillit til þessa í heimsóknum aðstandenda og vina. Forðast skal að halda uppi stanslausum samræðum sem mögulega geta þreytt sjúklinginn eða vera of mörg eða of lengi í heimsókn.
  • Ef sjúklingi líður vel og er í góðu skapi þá skal viðhalda því og tala um eitthvað jákvætt og skemmtilegt en ekki endilega sjúkdóminn sjálfan.
  • Forðast ber að tala of mikið um aðra sem hafa greinst með krabbamein nema sjúklingurinn tali um það af fyrra bragði. Öll krabbameinstilfelli eru ólík hvað varðar meðferð og horfur og slíkur samanburður kemur ekki til með að hjálpa.
  • Gott er að hafa í huga að einungis að halda í höndina á sjúklingi eða gefa honum faðmlag getur þýtt meira en þig grunar. Einnig að sitja saman í hljóði. Slíkt getur oft verið meira virði en þúsund orð.
  • Að sýna svipbrigði á borð við mæðusvip virkar alls ekki vel. Það er mjög óþægilegt fyrir sjúkling að tjá sig þegar aðstandandi horfir sífellt á hann eins og hann sé við dauðans dyr. Það eykur líkurnar á því að sjúklingurinn tjái sig ekki við viðkomandi aðstandanda.
  • Njótið líðandi stundar með sjúklingnum og öðrum #lífiðernúna.

MERKINGAR:

FINNUR ÞÚ EKKI ÞAÐ SEM ÞÚ ERT AÐ LEITA AÐ?

Senda okkur póst Messenger Senda okkur spurningu