Skip to main content

Þú mátt ekki heldur gleyma ÞÉR

Álag á aðstandendur getur orðið mjög mikið og það er hætta á að þeir hreinlega gleymi sjálfum sér og það bitnar á öllum. Aðstandandi er mikilvægur í lífi sjúklings. Það er hins vegar líka nauðsynlegt að þú hlúir að sjálfum þér og passir að hlaða batteríin.

Mikilvægt er að þú finnir tíma fyrir sjálfan þig sem nærir þig, hvort sem það er að borða hollt, hitta vini, fara í sund eða ræktina. En auðvitað getur þetta verið erfitt. Finndu það sem lætur þér líða vel.

Kannski líður þér vel að leggjast upp í sófa og horfa á „heilalausa“ mynd eða jafnvel fara út að hlaupa. Þetta fer eftir hverjum og einum og ekki láta aðra segja þér fyrir verkum því það er mismunandi hvað hentar hverjum og einum.

Ekki vera með samviskubit yfir því að fara ekki eftir ráðum annarra þó þau séu gefin af góðum hug. Þér finnst kannski ekkert gaman að fara út að hlaupa. Af hverju átt þú þá að vera með samviskubit yfir því að gera það ekki? Passaðu þig líka að fá ekki samviskubit ef þig langar að kíkja út með vinunum og sá veiki er á spítala. Þú mátt hafa gaman.

Krabbameinsveikindi geta verið mjög mismunandi og geta tekið bæði stuttan og langan tíma. Það er auðvitað einstaklingsbundið hvaða aðstoð hentar aðstandendum. Reynslan hefur sýnt að margir þjást af áfallastreituröskun eftir svona lífsreynslu og því getur verið gott að leita til sérfræðinga sem takast á við þann vanda með þér. Jafningjastuðningur í Stuðningsneti Krafts og Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins hefur hjálpað mörgum sem og aðstandendanámskeið hjá Ljósinu.

Stuðningsfulltrúar Krafts eru víða um landið og stuðningur fer oft líka fram í gegnum síma eða samfélagsmiðla. Vinir og félagar eru líka alltaf góður stuðningur.

MERKINGAR:

FINNUR ÞÚ EKKI ÞAÐ SEM ÞÚ ERT AÐ LEITA AÐ?

Senda okkur póst Messenger Senda okkur spurningu