Um félagið

Stuðningsfélagið Kraftur var stofnað 1. október 1999 og hefur frá upphafi haft það að leiðarljósi að beita sameinuðum kröftum sínum til að aðstoða og styðja ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur. Félagið var stofnað af fólki sem fannst vanta stuðning og fræðslu fyrir fólk sem væri að greinast með krabbamein á yngri árum. Á þessum tíma var umræða um krabbamein á Íslandi sama sem engin og hefur Kraftur lagt áherslu á að opnu umræðuna og beita sér fyrir hagsmunum og velferð ungs fólks sem greinst hefur og aðstandenda.

Kraftur er klúbburinn sem enginn vill vera í en við tökum vel á móti ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum, veitum þeim stuðning og reynum að létta þeim lífið með fjölbreyttri þjónustu. Kraftur vill vera þungamiðjan í storminum sem félagsmenn okkar geta alltaf leitað til, vitinn í þokunni sem vísar veginn og krafturinn sem knýr áfram breytingar í samfélaginu sem bæta hag og velferð félagsmanna okkar.

Við styðjum við félagsmenn okkar með því að halda úti jafningjastuðningi, hagsmunagæslu, öflugri fræðslu, fjárhagslegum stuðningi, samveru á jafningjagrunni, veita hagnýtar upplýsingar og stuðla að samvinnu félagasamtaka, heilbrigðisstarfsmanna og annarra sem koma að málefnum þeirra sem tengjast sjúkdómnum.

Félagið er rekið af starfsmönnum og sjálfboðaliðum og stýrt af stjórn. Hjá félaginu eru starfsmenn sem sinna meginþunga starfseminnar en einnig eru verktakar sem sinna hinum ýmsu störfum svo sem þjónustu við félagsmenn, markþjálfun, líkamlegri þjálfun, kynningarmálum og fræðslu svo eitthvað sé nefnt.

Kraftur starfar á landsvísu sem sjálfstætt áhugamannafélag og er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélags Íslands.

Í myndbandinu hér að neðan má kynnast starfsemi félagsins betur og hvernig það hefur breyst í gegnum tíðina. Myndbandið er heimildarmynd sem var gerð í tilefni af 20 ára afmæli Krafts árið 2019 og spannar sögu Krafts í máli og myndum.