Siðareglur gilda fyrir alla starfsemi félagsins, stjórnarmenn, starfsmenn og sjálfboðaliða Krafts.
Tilgangur siðareglna
- Að veita stjórn og starfsmönnum Krafts stuðning í hlutverki sínu að vinna í þágu félagsmanna sinna.
- Að efla gagnsæi, góða stjórnarhætti og faglegt starf í þágu félagsmanna Krafts.
- Að veita stjórn, starfsmönnum og sjálfboðaliðum viðmið um breytni og þá faglegu ábyrgð sem á þeim hvílir.
Kraftur
- Starfar sjálfstætt að markmiðum sínum, með hagsmuni félagsmanna sinna að leiðarljósi, án þrýstings eða skuldbindinga gagnvart stjórnvöldum, styrktaraðilum eða öðrum utanaðkomandi aðilum.
- Hefur heilsuvernd að leiðarljósi í starfsemi sinni og sýnir félagsmönnum sínum og almenningi gott fordæmi um heilsusamlegt líferni sem dregur úr líkum á krabbameinum og eykur lífslíkur krabbameinsgreindra.
- Hefur umhverfissjónarmið að leiðarljósi í rekstri sínum og sýnir með því gott fordæmi í umgengni við náttúru og samfélag.
- Mismunar ekki félagsmönnum sínum, né þeim sem félagið á í samskiptum við. Hvorki á grunni þjóðernis, kyns, kynhneigðar, fötlunar, trúar, skoðana eða annars sem er ólíkt með fólki.
- Misnotar ekki stöðu sína sem veitandi þjónustu til að misbjóða eða rýra traust þeirra sem til þeirra sækja.
- Veitir áreiðanlegar upplýsingar sem gefa rétta mynd og samhengi þess sem verið er að kynna. Tölfræði og hugtök skulu vel skilgreind og stuðla að skýrum og réttum fréttaflutningi.
Stjórnarmenn, starfsmenn og sjálfboðaliðar Krafts skulu:
- Hafa stefnu og gildi Krafts[1] ávallt að leiðarljósi í störfum sínum.
- Halda tryggð við tilgang[2] og orðstýr Krafts.
- Gæta fyllsta trúnaðar um það sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og ber að fara með sem trúnaðarmál. Trúnaður helst eftir að viðkomandi lætur af störfum fyrir félagið.
- Gæta þess að nýta trúnaðarupplýsingar sér ekki til framdráttar.
- Veita ekki fyrirgreiðslu vegna persónulegra tengsla eða vensla.
- Virða störf annarra félaga og samtaka og kynna sig í krafti eigin starfs.
- Sýna hvert öðru virðingu, samstarfsvilja og stuðning til að stuðla að framgangi verkefna.
- Ekki taka þátt í, heldur leitast við að koma í veg fyrir einelti og hverskonar ofbeldi, andlegt, líkamlegt og/eða kynferðislegt.
Ábyrg fjármál
- Meðferð fjármuna er samkvæmt viðurkenndum bókhalds- og reikningsskilavenjum og endurskoðun reikninga í höndum löggiltra endurskoðenda.
- Upplýsingar um fjárhag og rekstur eru gegnsæjar, settar fram á einfaldan og skýran máta.
- Ágóðahlutur af hvers kyns sölu og kostnaðarhlutfall við fjáraflanir liggja fyrir og er aðgengilegt þeim sem þess óska.
- Kraftur aflar ekki fjár með ósiðlegum hætti.
- Starfsfólk gætir ráðdeildar í daglegum rekstri og við meðferð fjármuna félagsins.
Starfsmönnum og sjálfboðaliðum Krafts, þar með talið stjórnar- og nefndarmönnum, eru kynntar þessar reglur í upphafi starfs síns fyrir félagið. Þeir staðfesta með undirskrift sinni að þeir fallist á að starfa eftir þeim.
Vakni grunur um eða verði ljóst að siðareglur þessar hafi verið brotnar má hver sem þess verður var, tilkynna það til stjórnarformanns Krafts. Skal stjórnin taka málið til umfjöllunar og afgreiðslu með hliðsjón af lögum félagsins. Sé það stjórnarformaður sem er grunaður um brot á siðareglum skal tilkynna brotið til varaformanns stjórnar.