Skip to main content

Kraftur og Krabbameinsfélagið starfrækja Stuðningsnetið sem er með yfir 100 reynslubolta sem skilja þig. Fólk á öllum aldri sem hefur greinst með krabbamein eða eru aðstandendur. Þau eru öll tilbúin að hlusta, deila og vera til staðar fyrir þig.

Þú getur óskað eftir að tala við jafningja sem skilur þig. Hringdu í síma 866 9618 eða sótt um hér.

Hér að neðan má lesa nokkrar ólíkar sögur stuðningsfulltrúa  í Stuðningsnetinu | #égskilþig #stuðningsnetið

Anna Lára

ANNA LÁRA MAGNÚSDÓTTIR

GREINDIST 40 ÁRA MEÐ BRJÓSTAKRABBAMEIN.

„Jafningjastuðningurinn veitti mér von.”

„Ég er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu því ég sjálf nýtti mér jafningjastuðning þegar ég greindist og ég veit því hvað hann skiptir miklu máli.

Jafningjastuðningurinn sem ég fékk veitti mér von. Sú sem var stuðningsfulltrúinn minn hafði gengið í gegnum brjóstakrabbamein og lyfjameðferð og það gekk vel hjá henni. Það veitti mér von um að þetta yrði allt gott aftur og maður fengi lífið til baka. Það skiptir líka svo miklu mála að maður einangri sig ekki heldur þyggi hjálp og stuðning. Það var svo gott að hitta einhvern sem maður getur samsamað sig við og maður finnur samkennd með. Hitta einhvern sem er á svipuðu róli sem þú getur spurt spurninga og fengið svör frá.

Það er svo gott að heyra líka sögu annarra því þetta snýst allt um að maður sé ekki einn í heiminum með þetta.”

Anna Lára er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu 

Ólafur Einarsson

ÓLAFUR EINARSSON

GREINDIST 8 ÁRA MEÐ HVÍTBLÆÐI.

„Jafningjastuðningur hjálpar og flýtir batanum því andlega hliðin er oft vanmetin.“

„Þegar ég greindist með hvítblæði þá var Stuðningsnetið ekki til en ég hefði svo sannarlega þurft á svona stuðningi að halda þegar ég var yngri, eða allavegana á unglingsárunum. Það hefði hjálpað mjög mikið að finna fyrir stuðningi frá einstaklingi sem hefði áður gengið í gegnum það sama og ég.
Líkamlega er ég orðinn alveg 100% en ég er alltaf að berjast við hræðsluna um að fá aftur einhvers konar krabbamein.

Eftir að ég lauk meðferð á sínum tíma fékk ég engan stuðning eða sálfræðiaðstoð. Í rauninni var mér bara hent út í samfélagið eftir meðferðina og þegar ég kom til baka „í lífið“ var ég kallaður krabbameinssjúklingurinn. Þetta var í kringum 1998 og mín upplifun var að fólk og jafningjar væru að forðast mig. Í dag hef ég náð að byggja upp styrk en þetta var mjög erfitt, það var ekki bara erfitt að sigrast á krabbameininu heldur líka að koma aftur til baka út í lífið. Ég myndi segja að þetta hafi breytt mér og sýn minni á lífið. Það er búið að greina mig með almenna kvíðaröskun en ég hef unnið vel í því með hjálp fagfólks.

Þegar ég lít til baka og horfi á mig sem barn og ungling þá hefði það gert heilmikið fyrir mig að sjá einhvern sem væri búinn með meðferð og kominn á góðan stað í lífinu sem hefði lent í svipuðu og ég. Það hefði gefið mér mikinn styrk. Það er mismunandi hvernig fólk jafnar sig eftir meðferð en ég tel að allir þurfi að sjá og hitta einhvern sem er búinn að ganga í gegnum þetta, m.a. til að finna fyrir skilning og gefa manni von um framhaldið. Það er eitt að klára meðferðina en svo er það annað að jafna sig eftir meðferð og það tekur fólk mislangan tíma.

Jafningjastuðningur hjálpar og flýtir batanum því andlega hliðin er mjög vanmetin. Að mínu mati ætti að taka við meðferð sem vinnur í andlegu hliðinni eftir að maður klárar meðferðina. Fólk áttar sig kannski betur á því eftir á að það þurfti á meiri aðstoð að halda. Kannski telur það sig ekki hafa þörf á jafningjastuðningi en sér svo eftir því síðar meir. Ég er búinn að hitta ótrúlega mikið af fólki sem hefur verið með krabbamein. Það eru einhver ólýsanleg tengsl sem myndast og samstaða.“

Ólafur er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu

Anna María Milosz

ANNA MARÍA MILOSZ

GREINDIST 34 ÁRA MEÐ NON-HODGKINS EITILFRUMUKRABBAMEIN.

„Ég tel það mjög mikilvægt að tala um hlutina og hlusta á aðra og þess vegna er ég í Stuðningsnetinu. – Það er svo gott að pústa við einhvern sem skilur þig.”

„Ég er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu því það er svo gott að tala um hlutina og ég tel mig geta hjálpað öðrum þar sem ég er mjög góð í að hlusta. Það er svo gott að tala um hluti og pústa við einhvern sem hefur svipaða reynslu. Stundum er maður bara ekki í stuði til að tala og þá getur verið gott að hlusta á reynslu annarra og finna að maður er ekki einn. Reynslan mín varðandi krabbamein er jákvæð miðað við allt. Ég lærði mikið um sjálfa mig, mína styrkleika og að hugsa vel um sjálfa mig. Þegar ég var veik var ég með stuðningsfulltrúa en ég gaf mér aldrei tíma til að hitta hana. Ég sé alveg eftir því. Í dag segi ég við alla að það skiptir máli að þyggja stuðninginn því jafningjastuðningur getur hjálpað.”

Anna María er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu 

Haukur

HAUKUR GUNNARSSON

GREINDIST 67 ÁRA MEÐ BLÖÐRUHÁLSKIRTILSKRABBAMEIN.

„Það er magnað fyrirbæri þetta samtal.“

„Þegar ég komst yfir mesta svekkelsið við að greinast með blöðruhálskirtilskrabbamein og svekkelsin sem fylgdu líka í kjölfarið þá þurfti ég bara að hugsa um hvað geri ég í dag. Að vera í núinu og lifa í lausninni. Ég ákvað að ég get haft gaman í dag þó ég sé með krabbamein. En það hefur tekist bara nokkuð vel en auðvitað dett ég inn í það stundum að hugsa … hvað svo. Því ég hef náttúrulega verið í þannig ferli að blöðruhálskirtillinn var tekinn og það dugði ekki til og ég fór í geisla sem höfðu ekkert að segja og síðan fór ég á lyf og er á þeim núna.

Það er mjög mikilvægt að vera ekki einn í þessu og vera í sambandi við einhvern annan. Konan mín hefur sótt stuðning m.a. til Ráðgjafarþjónustunnar og farið þar í viðtöl sem hefur gert henni mjög gott og auðveldað okkur að tala saman. Við tölum þá sama tungumál sem skiptir máli. Hún veit þá um hvað ég er að tala og ég hvernig hennar upplifun er. Þetta hefur ekki síður verið erfitt fyrir hana. Ég hef líka verið duglegur að upplýsa fjölskylduna um allt ferlið.

Mér finnst það vera gefandi að segja frá hvernig mér hefur liðið og tekist á við þetta og því er ég stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu. Menn geta leitað til mín og fengið vitneskju um hvaða aðferð ég notaði þegar það var val um að fara í geisla eða uppskurð. Það er erfitt að stíga skrefið og því er það svo gott að hafa einhvern með sér sem skilur mann. Það er svo magnað fyrirbrigði þetta samtal. Ég hef mjög mikla trú á samtalinu þar sem það gerir mér mjög gott og veit það gerir margt gott fyrir aðra.“

Haukur er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu

Ragnheiður Guðmundsdóttir

RAGNHEIÐUR GUÐMUNDSDÓTTIR

GREINDIST 36 ÁRA MEÐ KRABBAMEIN Í LÍFHIMNU OG LIFUR.

„Það skiptir miklu máli að finnast maður ekki vera einn.“

„Það að greinast með krabbamein hefur breytt lífi mínu. Þetta breytir manni sem manneskju og hvernig maður horfir á lífið. Maður þarf að læra inn á sig aftur og læra hvernig maður fúnkerar í umhverfinu sem nýr og breyttur einstaklingur. Þetta getur valdið kvíða og maður þarf að finna nýjar leiðir til að hlutirnir virki. Ég hef reynt að komast að því hver ég er í dag, eftir veikindin, og hvernig ég get komið aftur inn í samfélagið. Að reyna finna leiðir hvernig ég vinn með kvíðann, áfallastreituna og þunglyndið sem óneitanlega fylgja svona veikindum. Ef ég get hjálpað einhverjum öðrum, þá gefur það lífinu tilgang og því er ég stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu.

Í jafningjastuðningi finnur maður að maður er ekki einn. Það eru fleiri sem deila þessari lífsreynslu sem maður er að ganga í gegnum. Kannski er einhver búinn að finna einhver bjargráð sem þú hefur ekki enn fundið og getur deilt þeim með þér. Það er mikilvægast að finna að maður er ekki einn í þessari stöðu.

Ég var sjálf ekki nógu dugleg að hafa samband við stuðningsfulltrúann sem ég fékk. Við hittumst aldrei vegna þess að ég bjó í Hveragerði. Ég nýtti mér hann ekki nógu mikið til að átta mig á því hvernig hann hjálpaði. En í dag veit ég betur. Það gaf mér von og hjálpaði mér að finnast ég ekki vera ein og geta talað við aðra t.d. á viðburðum hjá Krafti sem hafa gengið í gegnum það sama og fá fullan skilning. Þegar maður talar við fólk sem hefur ekki greinst með krabbamein þá veit það ekki alltaf um hvað þú ert að tala og það veit ekki hvernig það á að svara manni. Mikilvægt er að geta talað við einhvern sem hefur skilning á því sem þú ert að ganga í gegnum.“

Ragnheiður er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu

Ása Nishanti

ÁSA NISHANTI MAGNÚSDÓTTIR

GREINDIST 29 ÁRA MEÐ EITLAKRABBAMEIN OG HEF MISST BÁÐA FORELDRA MÍNA ÚR KRABBAMEINI.

„Maður er svo hræddur og því er svo gott að hafa einhvern sem er búinn að ganga í gegnum það sama og vita að nú sé allt í lagi.”

„Það var mikið sjokk að fá krabbamein og ég vissi ekki hvert ég ætti að leita. Ég var mjög heppin að hitta stelpu sem fékk nákvæmlega sama krabbamein og ég. Það var mjög gott að hitta hana og ég fann að þetta var stuðningur sem mig vantaði.

Það að fræðast meira um krabbameinið sem ég fékk í gegnum aðila sem hafði gengið í gegnum það sama hjálpaði mér að takast á við þetta. Ég fékk að vita hvernig hún upplifði einkennin og það var svo gott að geta borið saman bækur okkar. Á þessum tíma var ég búin að missa mömmu úr krabbameini og það gaf mér von að sjá þessa stelpu sem var búin með meðferðina og laus við krabbameinið.

Þegar Kraftur var í herferðinni „Krabbamein kemur öllum við“ þá fór ég að kynna mér betur hvað Kraftur hefði upp á að bjóða og sá að það var verið að auglýsa eftir stuðningsfulltrúum og ákvað að taka þátt. Ég er Stuðningsfulltrúi því mér finnst skipta máli að geta hjálpað manneskju sem er að fara í gegnum svona áfall og geta verið til staðar dag og nótt. Það getur hjálpað gríðarlega mikið að fá stuðning frá öðrum. Stuðningur frá heilbrigðisstarfsfólki er annars konar. Þessi reynsla hefur orðið til þess að ég er sterkari einstaklingur, öruggari og þroskaðri.”

Ása er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu 

Gísli Álfgeirsson

GÍSLI ÁLFGEIRSSON

VAR 38 ÁRA ÞEGAR KONAN MÍN LÉST ÚR KRABBAMEINI EFTIR 6 ÁRA BARÁTTU. VIÐ EIGUM 3 BÖRN.

„Það þroskar mann mikið að vera stuðningsfulltrúi og kennir manni almenna samkennd með náunganum“

„Konan mín greindist árið 2013 með brjóstakrabbamein og fór þá lyfjameðferð, brjóstnám og geisla. Hún greindist svo aftur árið 2015 og þá var krabbameinið búið að dreifa sér um líkamann.

Í þessu stóra sorgarferli sem hefst þegar maður fær að vita að maki manns sé með krabbamein þá skiptir rosalega miklu máli að fá hjálp og stuðning. Maður kemst ekki í gegnum þessa reynslu án þess að tala við einhvern eða það efast ég stórlega. Ég er búinn að prófa að vinna mig frá þessu og drekka mig frá þessu. Hvorugt gengur. Það var ekki fyrr en að ég bað um aðstoð og stuðning að þetta fór að ganga.

Ég ákvað að gerast stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu til að hjálpa öðrum aðstandendum. Aðstandendum sem eiga jafnvel maka með brjóstakrabbamein og börn. Maður þarf að styrkja foreldrið til að geta styrkt barnið sitt. Þannig að það er ekki alltaf að barnið þurfi stuðning í Stuðningsnetinu heldur að það þurfi stuðning foreldri síns. Þá er um að gera að foreldrið geti fengið stuðning hjá Stuðningsnetinu fyrir sig. Ég vona að það hjálpi þeim en það hjálpar mér ekki síður. Að geta talað um þetta og miðlað af eigin reynslu. En í flestum tilfellum er ég bara að hlusta. Stuðningsnetið er svo mikilvægt því þar er fólk eins og ég og þú sem deila sömu reynslu. Svona jafningjastuðningur er einstakur.“

Gísli er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu

Ingibjörg Þorgerður

INGIBJÖRG ÞORGERÐUR ÞORLEIFSDÓTTIR

GREINDIST MEÐ LUNGNAKRABBAMEIN 50 ÁRA OG AFTUR 64 ÁRA.

„Mig vantaði einhvern til að tala við og Stuðningsnetið gerir fólki svo gott.”

„Þegar ég greindist með krabbamein þá var ég svo ein. Ég hélt það væri eitthvað eða einhver sem ég gæti leitað til en það var bara enginn sem ég gat talað við. Það varð til þess að ég ákvað að verða stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu þegar það var stofnað svo ég gæti verið til staðar fyrir aðra í sambærilegum sporum.

Ég held að fólk sem hefur lent í svona skilji fólk sem er að greinast miklu betur heldur en fagfólkið. Fagfólkið reynir sitt besta að skilja þetta líka en ef þú hefur ekki lent í þessu þá getur þú ekki sett þig almennilega í þessi spor. Ég hef hitt nokkrar konur sem stuðningsfulltrúi og bara það að sjá mig lifandi eftir öll þessi ár, gerði mjög mikið fyrir þær. Þær voru vissar um að þær myndu deyja en þær eru allar sprelllifandi í dag, 12 árum seinna.

Mér datt sjálfri aldrei í hug að ég myndi deyja. Læknirinn sagði við mig löngu seinna að hann hefði ekki veðjað við mig 10 krónum um að ég myndi lifa árið af vegna þess að þetta var búið að dreifa sér, var ekki bara í lungunum. Ég ákvað að halda áfram að lifa þessu daglega lífi. Ég fór í vinnuna, ég átti unglinga og við létum lífið hafa eins eðlilegan gang og hægt var. Svo náði ég mér mjög vel. Það var meira sjokk að greinast aftur fyrir ári síðan. Læknirinn sagði við mig að það væri alltaf aðeins meiri hætta á að ég myndi greinast aftur. Ég var með mjög góðan lækni og á honum lífið að launa. Ég er búin að vera í eftirliti árlega en meinið uppgötvaðist bara fyrir tilviljun. Sem betur fer var bara hægt að skera það í burtu í þetta skiptið.“

Ingibjörg er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu 

Nilsína Larsen

NÍLSÍNA LARSEN EINARSDÓTTIR

GREINDIST 32 ÁRA MEÐ EITLAKRABBAMEIN OG VAR TVÍTUG ÞEGAR PABBI GREINDIST.

„Það er enginn sem skilur þessa upplifun nema sá sem hefur farið í gegnum hana.” 

„Ég hef verið aðstandandi þar sem pabbi minn greindist með krabbamein í hálsi þegar ég var tvítug og svo hef ég sjálf líka fengið krabbamein. Ég var 32 ára þegar ég greindist með eitlakrabbamein á þriðja stigi og þurfti að fara í gegnum miklar lyfjameðferðir og endaði á að þurfa fara í stofnfrumumeðferð. Mér var haldið sofandi eftir eitrunaráhrif meðferðar og var tvísýnt hvort ég myndi vakna aftur. En hér er ég í dag.

Það gerði mér mjög mikið að fá jafningjastuðning á sínum tíma og því er ég sjálf núna stuðningsfulltrúi. Það að hitta einhvern sem hafði farið í gegnum það sama og ég var að fara í gegnum gaf mér svo mikla von. Að hitta manneskju sem leit bara þokkalega vel út eftir þetta allt saman, með hár, augabrúnir, augnhár, sömu örin og ég, og geislandi líf í augunum – ef að hún gat þetta þá mundi ég kannski bara mögulega geta þetta líka.

Þegar maður greinist með lífsógnandi sjúkdóm þá er ákaflega mikilvægt að maður fái tækifæri að ræða málin við fagaðila svo sem lækna, hjúkrunarfræðinga og sálfræðinga. En jafningjastuðningur er ótrúlega mikilvæg viðbót. Að tala við einhvern sem hefur verið í þínum sporum og skilur þitt landslag og þinn heim akkúrat þar sem þú ert núna.

Krabbamein hefur líka gífurlega mikil áhrif á alla í kringum þann greinda. Ert þú vinur, maki, frændi eða vinkona og það er einhver nákominn þér sem er að ganga í gegnum krabbamein og þig langar til að vera til staðar? Þá er um að gera að taka bara upp símann og hringja í Stuðningsnetið og fá aðstoð.”

Nílsína er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu

Guðmundur

GUÐMUNDUR G. HAUKSSON

GREINDIST 54 ÁRA MEÐ KRABBAMEIN Í BLÖÐRUHÁLSKIRTLI.

„Maður fær frá fyrstu hendi upplifun og reynslu frá fólki sem er búið að ganga í gegnum þetta.“

„Þetta var í raun eitt mesta áfall sem hægt er að upplifa að greinast með krabbamein. Það sem kemur einhvern veginn upp í hugann er “þetta er búið” og það er ekkert smá mál að eiga við þessa hugsun. Að geta talað við einhvern sem hefur upplifað þetta og gengið í gegnum þetta er einstakt. Það koma upp svo margar spurningar bæði tilfinningalegar og líkamlegar. Ég tala ekki um þegar það á að fara taka ákvarðanir þegar það liggja kannski á borðinu einhverjir möguleikar í því að gera hlutina svona eða hinsegin.

Jafningjafræðslan er alveg gríðarlega góð gagnvart því að skilja bara hvernig er að eiga við þetta, taka upplýstari ákvarðanir og geta líka fengið innsýn inn í það hvernig er að upplifa þetta. Hvernig er að ganga í gegnum þetta áður en þú gerir það sjálfur. Þarna er ég í raun sem stuðningsfulltrúi að nýta það sem ég hef gengið í gegnum og hjálpa öðrum að líða betur.

Að ganga einn í gegnum svona er ekki gott vegna þess að þetta er mikið að eiga við og getur sótt mikið á mann. Það er svo mikils virði að hafa einhvern til að tala um þetta við og opna málið gagnvart öðrum. Það gerir alla þessa hluti miklu auðveldari. Stuðningsnetið er alveg gríðarlega mikilvægt fyrir einstaklinginn sem er að greinast. En það er ekki síður mikilvægt að Stuðningsnetið kemur inn á aðstandendur því þeir eru líka að ganga í gegnum hlutina með þeim sem greinast og þurfa á stuðningi að halda.“

Guðmundur er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu 

Salvör Sæmundsdóttir

SALVÖR SÆMUNDSDÓTTIR

VAR 17 ÁRA ÞEGAR ÉG MISSTI SYSTUR MÍNA ÚR KRABBAMEINI.

„Stuðningsnetið er svo dýrmætt því maður tengir svo sterkt við þá sem hafa upplifað það sama” 

„Þegar maður hefur persónulega reynslu af krabbameini hvort sem maður er aðstandandi eða greindur þá skilur maður þetta einhvern veginn miklu betur. Eftir að ég missti systur mína úr krabbameini og ég vissi af einhverjum í kringum mig væri líka búinn að missa systkini þá leið mér eins og að viðkomandi skildi mig. Ég hafði þörf fyrir að tala við einhvern sem hefði gengið í gegnum það sama.

Stuðningsnetið er svo dýrmætt því maður tengir svo sterkt við þá sem hafa upplifað það sama, þó svo að maður sé ekki einu sinni að tala við þá. Bara að vita til þess að það séu fleiri sem hafa upplifað það sama og maður. Þó að það líði 10-15 ár þá er maður alltaf með þetta með sér einhvern veginn það er að reyna lifa með reynslunni, sorginni og söknuðinum.

Jafningjastuðningurinn er aðeins öðruvísi en að fara til sálfræðings. Það er ekki ójafnvægi, þetta eru bara tveir einstaklingar sem hafa lent í því sama. Það skapar vettvang til að geta rætt hlutina án þess að það sé endilega einhver tilgangur með samtalinu heldur bara að ræða saman. Það er svo mikilvægt að tala saman og ef ég veit að þú hefur upplifað svipaðan hlut og ég þá veit ég að þú skilur hvað ég er að segja. Ég tel það eitt það mikilvægasta. Það er gott ef fólk hefur þörf á því og vill geta rætt við einhvern með svipaða reynslu. Spegla sig í þeirri manneskju og hennar reynslu.

Á sínum tíma fékk ég ekki jafningjastuðning eins og er í boði í Stuðningsnetinu. Ég var bara 13 ára þegar systir mín greindist og það var enginn 13 ára í bekknum mínum sem hafði upplifað það sama. Þetta er allt annar pakki. Því er gott að finna einhvern annan sem veit hvað maður er að meina og finna að maður er ekki einn. Ég man eftir að hafa talað við konu sem hafði átt veika systur. Þrátt fyrir að ég var barn og hún fullorðin var gott að finna að maður var ekki einn í heiminum. Það er mikið álag að vera aðstandandi og systkini eiga það til að verða pínu útundan í svona ferli.“

Salvör er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu

Sandra Dögg

SANDRA DÖGG EGGERTSDÓTTIR

GREINDIST 18 ÁRA MEÐ EWING SARCOMA BEINKRABBAMEIN Í VIÐBEINI.

„Jafningjastuðningurinn getur hjálpað fólki í gegnum þetta og auðveldað ferlið.“

„Að ganga í gegnum krabbameinsmeðferð og eiga það á hættu að deyja var vissulega erfitt, en það hefur gert mig sterkari og gefið mér aðra sýn á lífið. Jafningjastuðningur er svo mikilvægur því þú getur sótt allt annars konar stuðning til fólks sem hefur farið í gegnum krabbameinsmeðferð heldur en frá læknum sem vita staðreyndirnar en eiga kannski erfitt með að átta sig á hvernig líðanin er. Jafningjastuðningurinn getur hjálpað fólki í gegnum þetta og auðveldað ferlið.“

Sandra Dögg er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu

Högni

HÖGNI SIGURJÓNSSON

GREINDIST 53 ÁRA OG SVO AFTUR 60 ÁRA MEÐ NON-HODGKINS EITLAKRABBAMEIN.

„Það skiptir svo miklu máli að heyra í og hitta fólk sem er á sama róli.“

„Þegar ég greindist með krabbamein þá hægðist hreinlega á öllu, hægðist allt lífið og allt fór miklu hægar fram. Í stofnfrumumeðferðinni varð ég rosalega veikur og eftir krabbamein forgangsraðaði ég bókstaflega öllu í lífi mínu og fékk allt aðra sýn á lífið, í dag eru sumir hlutir sem áður virtust mega bíða ,,betri tíma“ meira virði og framar í forgangsröðinni, gildismatið er annað.

Að mínu mati ætti fólk sem greinist eða er aðstandandi að setja sig í samband við Stuðningsnetið og heyra hvernig aðrir eru að upplifa veikindin. Það er svo margt sem læknirinn getur ekki sagt okkur en fólk sem er komið á þennan stað veit orðið ýmislegt. Það skiptir bara máli að tala við fólk sem er á sama róli og ekki síst að sjá að fólk hefur lifað af að hafa greinst með krabbamein og að krabbamein er ekki alltaf dauðadómur.

Það skiptir miklu máli að heyra í og hitta fólk sem er á sama róli. Við getum ekki sturtað þessu öllu yfir fjölskyldu, vini eða vinnufélaga, þau hafa ekki endalausa þolinmæði fyrir því. Að mínu mati á fólk bara að hafa samband við Stuðningsnetið, það getur svo metið það eftir á hvaða gagn það hefur af því.“

Högni er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu 

Sóley Erla

SÓLEY ERLA INGÓLFSDÓTTIR

GREINDIST 42 ÁRA MEÐ HVÍTBLÆÐI OG MAÐURINN MINN HEFUR EINNIG GREINST MEÐ KRABBAMEIN.

„Maður getur ekki gert þetta allt sjálfur. Það er bara ekki hægt að höndla þessar aðstæður þannig.”

„Fyrir mér er krabbamein ekki það versta í heiminum. Ég á lítinn strák sem er mikið fatlaður og með erfiða flogaveiki sem mun alltaf hafa mikil áhrif á líf hans. Þetta var tímabil sem við gengum í gegnum en það kláraðist, við lærðum mikið af þessu og það þroskaði okkur. Ég hafði manninn minn sem fyrirmynd. Hann komst í gegnum þetta. Við komumst í gegnum hans veikindi og við skyldum komast í gegnum mín veikindi. Þetta var bara spurning um tíma. Mér fannst eiginlega erfiðara að vera aðstandandi. Þessi sem er veikur er að tækla sjúkdóminn, spítalann og það allt saman. Sá aðili hefur rosalega góðan stuðning, það koma allir og hjálpa honum. En að vera aðstandandi þá þarft þú líka að gera allt hitt.

Krabbamein er ekki alltaf það sama og krabbamein. Fyrir suma er þetta mjög alvarlegur sjúkdómur og getur verið rosalega erfiður. En aðrar tegundir af krabbameini eru öðruvísi og mjög margir læknast.

Þegar maður fær greininguna krabbamein þá er manni hent út í hringiðu sem maður hefur enga stjórn á. Maður þarf aðstoð. Maður fær aðstoð upp á spítala við sjúkdómnum og allt sem honum viðkemur en maður þarf aðstoð líka við þetta daglega líf. Hvernig maður á að höndla það því það er allt gjörbreytt núna. Það að tala við einhvern sem hefur gert þetta áður skiptir öllu máli. Maður talar öðruvísi við ókunnuga en einhverja sem maður þekkir. Maður er oft að hlífa sínum nánustu og segir ekki alveg hvernig manni líður í rauninni og því skiptir Stuðningsnetið svo miklu máli.

Maður getur ekki gert þetta allt sjálfur. Það er bara ekki hægt að höndla þessar aðstæður þannig. Því er um að gera að leita til Stuðningsnetsins og fá stuðning og ráðgjöf frá einhverjum sem hefur verið í manns eigin sporum. Upplifað það sama og komist í gegnum það hvort sem þú ert krabbameinsgreindur eða aðstandandi.“

Sóley Erla er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu 

Guðrún Sesselja

GUÐRÚN SESSELJA SIGURÐARDÓTTIR

VAR 39 ÁRA ÞEGAR EIGINMAÐUR MINN GREINDIST MEÐ KRABBAMEIN. VIÐ EIGUM FJÖGUR BÖRN.

„Mér finnst svo mikilvægt að geta talað við einhvern sem hefur verið þarna. Sem getur bara sagt – Já ég veit.“

„Maðurinn minn sem var þá kærasti minn greindist með krabbamein árið 2016 og við vorum með fjögur börn á bilinu eins til fimmtán ára. Þegar maður á svona stóra fjölskyldu og mörg börn þá er alveg nóg að díla við bara það á hverjum degi og svo bættist þetta við. Mér fannst þetta vera óyfirstíganlegt verkefni. Ég sá ekki hvernig ég ætti að gera þetta og þegar ég fór á vefsíðu Krafts og sá að þarna var hægt að sækja um jafningjastuðning þá smellti ég strax á hnappinn og bað um stuðning. Ég var svo fegin að ég þurfti ekki að hringja og tala við einhvern því ég er ekki viss um að ég hefði getað það.

Mér fannst einhvern veginn eins og enginn skyldi mig og ég hugsaði strax: Ég verð að tala við einhvern sem getur sagt mér, hvernig ég á að gera þetta? Hvernig ég á að fara að þessu? Ég varð að fá manneskju sem hafði gengið í gegnum krabbamein með stóra fjölskyldu. Mér var alveg sama um kynið, eða krabbameinið mig vantaði einhvern sem hafði lifað þetta af með stóra fjölskyldu. Sá veiki er alltaf miðpunkturinn en það er líka alveg rosalega erfitt að vera aðstandandi og þeir þurfa líka hjálp. Það er ekkert sjálfgefið að fólk komi auga á það. Þegar að einn aðili veikist og er tekinn í burtu þá er þarna fjölskylda sem er án eins útlims og þarf að læra að gera hlutina upp á nýtt. Ég hef ábyggilega aldrei verið eins umvafin jafn miklu af fólki og þetta sumar sem hann var að lasinn en ég hef samt aldrei upplifað mig jafn einmana. Mér fannst ég vera eyland. En stuðningsfulltrúinn minn hún skyldi hvað var að gerast og hún gat sagt mér hvað hún hafði gert.

Það munar svo miklu að geta talað við einhvern sem skilur þig. Einhvern sem hefur verið þarna og getur sagt – já ég veit. Það er bara þessi fullvissa að manneskjan sem þú ert að tala við veit hvað þú ert að tala um.“

Guðrún Sesselja er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu

Berglind Þóra

BERGLIND ÞÓRA HARALDSDÓTTIR

GREINDIST 20 ÁRA MEÐ HODGKINS EITLAKRABBAMEIN.

„Það er svo gott að tala við einhvern sem skilur nákvæmlega það sem þú ert að ganga í gegnum.”

„Það var alveg rosalegt áfall fyrir mig, fjölskylduna og vinina þegar ég greindist með krabbamein. Það er enginn að búast við því að vera 20 ára og greinast með krabbamein. En við tókum bara á því og fórum saman í gegnum þetta ferli.

Ég sótti um í Stuðningsnetinu og fékk viðtal við stuðningsfulltrúa sem hjálpaði mér mjög mikið en fjölskylda og aðrir hefðu í raun líka átt að gera það. Það var mjög gott að spjalla um hlutina og fá að heyra reynsluna frá stuðningsfulltrúanum. Við gátum borið saman bækur okkar og talað um ýmislegt sem ég gat ekki talað um við neinn annan. Það var svo gott að tala við einhvern sem skildi nákvæmlega það sem ég var að ganga í gegnum.

Ég hitti sálfræðing einu sinni og félagsráðgjafa líka en það var bara allt öðruvísi. Það er meiri skilningur að tala við einhvern jafningja sem er á svipuðum aldri og hefur lent í þessu. Það var alveg gott að hitta fagfólkið en mér fannst bara betra að hitta jafningja á jafningjagrundvelli. Það er svo gott að fá svör við spurningum sem maður kannski þorir ekki beint að spyrja lækninn eða vill ekki tala um við foreldra sína og þess háttar.

Ég hvet alla til að taka þetta skref og sækja um stuðning. Ég er alveg viss um að þú munt ekki sjá eftir því og þetta muni hjálpa þér mjög mikið.”

Berglind Þóra er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu 

Arnar Sveinn

ARNAR SVEINN GEIRSSON

MISSTI MÓÐUR MÍNA ÚR KRABBAMEINI ÞEGAR ÉG VAR 11 ÁRA.

„Reynslusögur annarra var það sem virkilega hjálpaði mér í gegnum þetta.“

„Ég missti mömmu mína úr krabbameini árið 2003 þá 11 ára gamall. Hún veiktist fyrst árið 1993 en greindist svo aftur með meinvörp árið 1998. Hún lifði í raun lengi eftir það miðað við hvað læknarnir sögðu lífslíkur hennar vera.

Að heyra reynslusögur frá fólki sem var að ganga í gegn um svipaða hluti, upplifa svipaðar tilfinningar og fleira hefur hjálpað mér mest. Áður gerði ég allt sem ég gat til þess að forðast Kraft, vegna ótta við veikindin og dauðann. En nú veit ég betur

Fráfall mömmu hefur mótað mig fyrir lífstíð. Það tók mig langan tíma að vinna úr þessu áfalli. Ég reyndi að sópa því undir teppið en gat það ekki lengur. Þetta hefur gefið mér margt og mér finnst gott að geta þótt vænt um þessa hluti sem maður óskar þó að maður hefði aldrei þurft að ganga í gegnum. Út af þessari reynslu hefur ýmislegt jákvætt gerst. Hún hefur styrkt mig mikið persónulega og hjálpað mér að takast á við lífið. Ég á auðveldara með að aðlagast nýjum aðstæðum og hef mun meiri þrautseigju en áður. Í dag er reynslan mestmegnis jákvæð þó það hafi tekið tíma að komast þangað.

Stuðningsnetið og jafningjastuðningurinn skiptir svo miklu máli því þetta er eitthvað sem þú færð hvergi annarsstaðar. Með því að bjóða upp á Stuðningsnet þá er þetta orðið svo aðgengilegt. Sá sem þarf stuðning þarf ekki að fara að leita af einhverjum sjálfur. Hann/hún getur haft samband og fengið símtal frá einhverjum með svipaða reynslu á bakinu. Jafningjastuðningur og reynsla annarra var það eina sem lét mér finnast ég ekki vera einn.

Það er örugglega fullt af fólki þarna úti sem er, eins og ég var, logandi hrætt við veikindin og það er mikilvægt að fólk viti af því að það sé til Stuðningsnet sem það getur leitað til og fengið samband við einhvern sem veit hvað það er að ganga í gegnum.“

Arnar Sveinn er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu

Ágústa Erna Hilmarsdóttir

ÁGÚSTA ERNA HILMARSDÓTTIR

GREINDIST 35 ÁRA MEÐ BRJÓSTAKRABBAMEIN OG AFTUR 37 ÁRA. ER EINNIG AÐSTANDANDI.

„Stuðningsnetið gerir kraftaverk fyrir fjölskyldur og einstaklinga.“

„Ég hef bæði upplifað að vera aðstandandi og að vera veik. Þegar maður er aðstandandi þá er maður svo hjálparvana því þá er lítið sem maður getur gert. En þegar þú ert sjálfur veikur þá er þetta einhvern veginn í „þínum höndum“ þó það sæe óvissa og þú sért í meðferðum og allt sem því fylgir. Það er oft hreinlega erfiðara að vera aðstandandi en að vera veikur. Það er eitthvað sem við verðum alltaf að hugsa út í. Fólk, vinir og stórfjölskylda, er oft gjarnt á að einbeita sér einungis að þeim sem er veikur. En kannski er maki eða sá sem er næstur þeim veika að verða útundan. Það þarf að gæta að fólkinu sem er í kring því þetta er gríðarlegt álag, fólk er í sorg og upplifir einnig að það sé algjörlega hjálparvana. Því það getur ekki bara fundið lausnina á vandamálinu.

Ég trúi því að Stuðningsnetið geri kraftaverk fyrir fjölskyldur og einstaklinga. Bara það að þú getir hitt einhvern sem skilur þig og getur reynt að setja sig í spor þín og þú getur speglað þig í, getur vissulega hjálpað í þessu ferli. Hreinlega að geta treyst einhverjum fyrir tilfinningum þínum.

Það sem mér finnst mikilvægast í þessu Stuðningsneti er að mæta fólki nákvæmlega þar sem það er hverju sinni. Það getur verið á svo mismunandi stað. Að fólk fái viðurkenningu á tilfinningum sínum. Hvað það er að upplifa. Því þetta eru svo miklar og margslungnar tilfinningar og margir bara þora ekki að tjá sig um þær. En það getur verið rosalegur léttir að tala við einhvern sem hefur verið á svipuðum stað og þú sjálfur. Og bara það að sjá manneskju sem er jafnvel alveg heil í dag. Það er rosalega gott og mikilvægt. Við erum að sjálfsögðu bundin trúnaði og það sem er rætt fer ekkert lengra. Þú getur létt af þér og líður þá vonandi betur eftir á.“

Ágústa Erna er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu 

Nura Rashid

NURA RASHID

GREINDIST 36 ÁRA MEÐ BRJÓSTAKRABBAMEIN.

„Ég veit hversu erfitt það er að vera útlendingur hér á landi og greinast með krabbamein.“

„Ég ákvað að gerast stuðningsfulltrúi í Stuðningnetinu því ég veit hvað það er erfitt að vera útlendingur að greinast með krabbamein á Íslandi og ég vil aðstoða fólk af erlendum uppruna sem er að ganga í gegnum krabbamein og þá lífsreynslu.

Það var mjög erfið lífsreynsla að greinast með krabbamein og ekki síst því ég er útlendingur og ég á enga fjölskyldu hérna. Ég var með fyrrverandi manninum mínum og börnum og átti ég tvær vinkonur sem voru að vinna með mér og höfðu fengið brjóstakrabbamein. Þær sögðu mér frá sinni reynslu og það hjálpaði mér að undirbúa mig undir mína aðgerð og meðferð. Það hjálpaði mér rosalega mikið að hafa einhverja með svipaða reynslu sem töluðu við mig.

Jafningjastuðningur skiptir rosalega miklu máli. Þetta er sérstaklega erfitt fyrir konur af erlendum uppruna. Við erum ekki fjölskyldunet til að hjálpa okkur. Við höfum bara vinahópinn en það eru ekki allir vinahópar sem hafa einhvern með þessa reynslu. Þá þarf að leita eitthvert annað. Jafningjastuðningurinn hjálpaði mér mikið vegna þess að það er mjög ólík reynsla að fara í gegnum eitthvað svona í öðru landi. Þú þarft jákvætt fólk í kringum þig sem getur lyft þér upp andlega. Það gerir þér erfiðara fyrir að jafna þig eftir meðferð ef þú hefur ekki þess háttar fólk í kringum þig.
Ég er tilbúin að hjálpa fólki í gegnum meðferðina og að aðstoða við það hvernig er að undirbúa sig undir hana og þess háttar. Sumir þurfa aðstoð lengi meðan aðrir styttra. Stuðningsnetið er ekki bara fyrir Íslendinga heldur eru allir velkomnir sama af hvaða uppruna þeir eru.“

Nura er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu 

Þráinn

ÞRÁINN ÞORVALDSSON

GREINDIST 61 ÁRS MEÐ BLÖÐRUHÁLSKIRTILSKRABBAMEIN.

„Það er mjög mikilvægt fyrir alla sem að greinast að finna að þeir eru ekki einir.”

„Ég greindist 61 árs með blöðruhálskirtilskrabbamein. Ég gat lifað án þess að fara í meðferð en mér var ekki spáð bjartri framtíð og við sögðum engum frá þessu. Á þeim tíma var engan stuðning að fá og ég hafði engan til að tala við. Það sem veitti mér mestan stuðning var að ég fór á spjallvef í Bandaríkjunum þar sem hægt var að senda inn fyrirspurnir og menn svöruðu og veittu ráðleggingar. Ég safnaði fjölmörgum upplýsingum og menn fóru svo að fá upplýsingar hjá mér og hringja í mig. Þá fann ég að þessi stuðningur skiptir miklu máli. Bara það að einstaklingur hafi einhvern til að tala við sem er búinn að feta þessa sömu slóð léttir mjög áhyggjur þeirra.

Það má líkja þessu við það þegar þú ferð í fjallgöngu. Svo skellur á þoka. Þú ert með leiðarlýsingu og allt en veist ekkert hvert þú átt að fara. Þá kemur einhver einstaklingur upp að hliðinni á þér í þokunni og segir “ég er búinn að fara þetta ég veit hver leiðin er. Ég skal hjálpa þér. Ég skal styðja þig og þú getur spurt mig spurninga sem þú vilt.” Þetta er svona sem jafningjafræðslan og Stuðningsnetið er. Þú hefur einhvern við hliðina á þér, einhvern sem þú getur talað við, sem getur létt af þér áhyggjum og stutt þig áfram í gegnum þokuna.

Ég held að flestir sem greinast með blöðruhálskirtilskrabbamein hverfi inn í neikvæðar hugsanir. Þeir hugsi ekki um að það séu jafnvel jákvæðir hlutir sem að gerast kannski í kjölfarið. Þetta breytir þínu lífi og lífsviðhorfum. Þannig að ef þú talar við aðra þá mun viðkomandi kannski opna fyrir þér þann heim að það er ekki allt svart í kringum þetta.“

Þráinn er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu 

Jóhanna Kristín

JÓHANNA KRISTÍN JÓNMUNDSDÓTTIR

GREINDIST 70 ÁRA MEÐ KRABBAMEIN Í ÞVAGBLÖÐRU.

„Það hreinlega léttir alla tilveruna að vera í Stuðningsnetinu.“

„Mér fannst alltaf gott að hitta fólk sem hafði meiri og verri reynslu en ég. Ég var heppin með minn sjúkdóm og var ekkert þjáð en það kom mér samt mikið á óvart. Mér fannst gott að heyra hvernig öðrum hefði gengið en á sínum tíma hefði mér fundist gott að fá að tala einslega við einhvern með svipaða reynslu. Ég fékk þó að hitta fólk í hópum sem hafði ólíka reynslu af stóma og fannst gott að heyra hvað öðrum fannst og heyra hversu gott þeim fannst að fá stómann.

Jafningjastuðningur skiptir máli því oft er miklu betra að tala við einhvern sem hefur lent í þessu líka og skilur hvað maður er að ganga í gegnum. Maður getur ekki spurt sína nánustu því þeir vita ekki hvað maður er að tala um. Maður getur heldur ekki alltaf verið að íþyngja fólkinu sínu, þau eru oft miklu hræddari en maður sjálfur. Allir voru hræddir nema ég á sínum tíma.

Það hreinlega léttir alla tilveruna að vera í Stuðningsnetinu bæði að þyggja stuðning og veita hann. Maður þarf á því að halda að geta tjáð sig. Þetta á líklega við um fleiri sjúkdóma en krabbamein. Það er gott að geta talað við einhvern utanaðkomandi um þessi vandamál, fólkið manns hefur nægar áhyggjur af manni fyrir.“

Jóhanna Kristín er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu

Pétur Helgason

PÉTUR HELGASON

VAR 40 ÁRA ÞEGAR EIGINKONA MÍN GREINDIST MEÐ BRJÓSTAKRABBAMEIN. VIÐ EIGUM FJÖGUR BÖRN.

„Ég er miklu sterkari aðili í dag vegna Stuðningsnetsins.“

„Þegar við komumst að því að konan mín væri með brjóstakrabbamein þá hugsuðum við – við björgum þessu. Við fórum strax að pæla í því hvernig við ættum að ræða þetta opinskátt við börnin og það gerðum við og báðum þau svo að vera ófeimin við að spyrja allra spurninga sem þeim dytti í hug. Ég held það hafi verið rétt að segja bara börnunum hvernig hlutirnir nákvæmlega voru og vera ekkert að fegra þá.

Ég tók svo bara alla vinnuna, börnin, æfingarnar og sinnti öllu og konan mín fékk hlutverkið að sinna sínu verkefni, krabbameininu. Ég var alveg á þeirri skoðun í upphafi að þetta yrði ekkert mál að ég myndi bara græja þetta allt saman. En svo fór að koma upp óþægilegar tilfinningar, kergja og reiði. Ég vissi ekki alveg hvað var í gangi hjá mér og vissi ekki hvernig mér leið. Svo bara einn daginn í vinnunni tók ég upp símann og bókaði mig á fund í Stuðningsnetinu án þess að vita hvað ég ætti að segja. Og upp frá þessu varð daglega líðan mín betri því ég fór að skilja og læra að andlegi þátturinn skiptir miklu máli fyrir hvern þann sem er að ganga í gegnum álíka áfall. Stuðningsnetið hefur leiðbeint mér og hjálpað mér að skilja þessa andlegu vanlíðan. Ég bara veit að það var alveg frábært fyrir mig. Mig vantaði rosalega mikið að tala og fá að heyra frá öðrum. Ég er þakklátur. Þetta hjálpaði mér að skilja tilfinningarnar og að átta mig á aðstæðum. Ég lærði að slaka aðeins á og njóta og eiga tíma fyrir sjálfan mig og að eiga tíma fyrir okkur tvö þó við eigum fjögur börn.“

Pétur er stuðningsþegi í Stuðningsnetinu 

Kristín Þórsdóttir

KRISTÍN ÞÓRISDÓTTIR

Missti manninn minn úr krabbameini eftir 11 ára baráttu þegar ég var 33 ára. Við eigum 3 börn.

„Það er svo dýrmætt að geta leitað stuðnings hjá einhverjum sem skilur mann.“

„Maðurinn minn greindist með heilaæxli árið 2006 sem þá var góðkynja en breyttist svo í illkynja. Svo greinist hann aftur 2015 og lést árið 2017. Eftir fyrstu greiningu þá vorum við svolítið ein. við vissum ekkert hvað var í boði og það var enginn að koma til okkar og benda okkur á hvar við gætum leitað okkur stuðnings og aðstoðar. Svo var mér sagt árið 2013 að það væri til Stuðningsnet. Þá ákvað ég að gerast stuðningsfulltrúi því ég vildi geta gefið það sem mig hafði vantað á sínum tíma.

Það er svo dýrmætt að geta leitað stuðnings hjá einhverjum sem skilur mann. Stuðningsnetið parar fólk saman sem hefur lent í svipuðum aðstæðum og erfiðileikum. Því það skiptir máli fyrir fólk að geta speglað sig í öðrum. Að maður upplifi sig ekki sem einu manneskjuna sem er að ganga í gegnum þetta.

Það að geta tekið upp símann og hringt í stuðningsfulltrúa sem er bundinn 100% trúnaði og gjörsamlega sagt allt við hann sem þig langar að segja er svakalega dýrmætt. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur að þú sért að særa einhvern eða manneskjan dæmi þig fyrir hugsanir þínar. Það eru t.d. alls kyns hugsanir sem maður telur kannski vera rangar hugsanir eða vitlausar hugsanir. En svo heyrirðu að viðkomandi hefur upplifað nákvæmlega það sama. Að geta sagt hlutina og viðkomandi skilur hvað þú ert að tala um og finnast maður ekki vera einn.

Þú getur ekki farið endalaust áfram á hnefanum og þá er svo ótrúlega mikilvægt að sýna þann styrk að leita sér stuðnings. Því það krefst gífurlegs styrks að viðurkenna að þú getir ekki gert þetta allt sjálfur og þú þurfir að fá hjálp og þurfir að fá aðstoð.“

Kristín er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu 

Rósa Björg

RÓSA BJÖRG KARLSDÓTTIR

GREINDIST 41 ÁRS MEÐ KRABBAMEIN Í RISTLI.

„Stuðningsnetið er svo mikilvægur hlekkur í bataferlinu.“

„Þegar ég er 41 árs greindist ég með mjög illvígt krabbamein í ristli sem var komið niðrí endaþarm og út í legháls og eitla í kviðarholi. Ég var búin að vera labba á milli lækna í alveg í eitt og hálft ár áður en ég fékk greininguna. Við tóku gríðarlega mörg ár í mikilli baráttu. Manni er bara hent niður á botninn og snýst á botninum lengi. Svo tekur við mikil endurhæfing og uppbygging og að læra að lifa nýju lífi því maður fer aldrei aftur á sama stað og fyrir veikindin. Ég er búin að læra það og sætta mig við það.

Ég á tvær stelpur og eiginmann og því miður fengu þau ekki stuðning á sínum tíma. Ég hefði viljað að Stuðningsnetið okkar hefði verið orðið svona öflugt og sterkt eins og það er orðið í dag. Ég sé það þegar ég lít til baka. Ég hefði svo innilega viljað að þau hefðu fengið utanumhald. En sem betur fer erum við komin með þessa hjálp í dag og þessa aðstoð. Ég hefði svo gjarnan líka viljað eiga svona stuðningsaðila. Svona hvetjara út í bæ sem að þyrfti bara að vera til staðar fyrir mig og hlusta.

Þú ert með frábæra lækna og heilbrigðissstarfsfólk en það er bara eitthvað x-mikið sem þú getur spurt það fólk út í af því það þekkir og veit ekki hvernig það er að lenda á þessum vegg. Hvernig það er að upplifa allt þetta flæði af tilfinningum. Það eru allir alltaf svo þakklátir loksins þegar þeir hitta einhvern sem hefur svipaða sögu, svipaða reynsla, á svipuðum aldri sem það getur spurt skrýtinna spurninga. Og þú ert ekkert dæmdur fyrir það. Þarna hittirðu bara einhvern einstakling sem getur gefið þér alls konar svör af eigin reynslu.

Ég vil bara hvetja alla til að leita til okkar í Stuðningsnetinu vegna þess að í lok dags þá kemurðu alltaf pínu ríkari út og átt fleiri verkfæri í töskunni til að leysa vandamálin.“

Rósa er stuðningsfulltrúi í Stuðningsnetinu 

Finnur þú ekki þann stuðningsfulltrúa sem þú leitar að?

Í Stuðningsnetinu eru yfir 100 einstaklingar sem búa yfir ólíkri reynslu. Hér að neðan getur þú sótt um jafningjastuðning og við finnum þann stuðningsfulltrúa sem gæti hentað þér.