Óskabrunnur Krafts er 25 ára afmælisgjöf Krafts til félagsmanna sinna. Óskabrunni Krafts er ætlað að létta líf greindra félagsmanna sem eru inniliggjandi á heilbrigðisstofnun, vegna meðferðar eða afleiðinga veikindanna eða njóta aðhlynningar í heimahúsi.
Félagsmönnum Krafts býðst að senda inn ósk í Óskabrunninn, einnig geta aðstandendur eða starfsfólk viðkomandi stofnana sent inn óskir fyrir hönd þeirra. Með því að verða við óskum þeirra vonumst við til að gera stundir þeirra bærilegri og skapa góðar minningar á erfiðum tímum.
Dæmi um óskir:
- Fá dekur, eins og nudd eða fótsnyrtingu
- Fá listamann í heimsókn
- Fá dýrindis máltíð frá uppáhalds veitingastaðnum
- Fá aðstoð við að skrifa endurminningar
- Fá uppistandara til að kitla hláturtaugarnar
- Fara myndatöku sjálf eða í fjölskyldumyndatöku.
- Fá heimilisþrif svo heimilið bíði tandurhreint
- Þyrluflug eða önnur ævintýri
- Leikhúsferð
Óskirnar eru í raun allt sem fólki dettur í hug og gæti mögulega bætt líðan þeirra, stytt þeim stundir og skapað góðar minningar. Kraftur mun leggja sig fram við að verða við þeim óskum sem félaginu berst en eins og gefur að skilja er erfitt að uppfylla sumar óskir. Ef þú vilt t.d. fá Justin Bieber í heimsókn þá erum við því miður ekki með númerið hans en gætum mögulega þekkt einhvern sem kann lögin hans.
Verndarar Óskabrunnsins er hlaupahópurinn HHHC sem hljóp í BOSS jakkafötum nokkur maraþon áður en þeir hlupu sjálft Reykjavíkurmaraþonið árið 2023. Það gerðu þeir til styrktar Krafti og söfnuðu rúmum 8 milljónum sem er stofnfé Óskabrunnsins.