Það skiptir okkur máli að standa við bakið á okkar félagsmönnum. Kraftur veitir félagsmönnum sínum eftirfarandi styrki:

Styrktarsjóður Krafts

Styrktarsjóðnum er ætlað að styrkja ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og lent hefur í fjárhagslegum erfiðleikum vegna veikinda sinna. Styrktarsjóðurinn er ætlaður til að standa straum af læknis- og lyfjakostnaði sem og öðrum kostnaði sem getur hlotist ef veikindum viðkomandi.

Styrkur til lyfjakaupa

Lyfjakostnaður er umtalsverður hjá þeim sem greinst hafa með krabbamein og þrátt fyrir að Sjúkratryggingar taki þátt í lyfjakostnaði, skv. reglugerð þar um, eru fjölmörg lyf sem krabbameinsgreindir þarfnast sem ekki eru niðurgreidd. Kraftsfélagar geta sótt um styrk  til félgsins til kaupa á lyfjum sem tengjast sjúkdómi þeirra. Styrkurinn er samstarfsverkefni Krafts og Apótekarans.

Styrkur til útfarar

Tilgangur sjóðsins er að styrkja aðstandendur til að standa straum af útfararkostnaði þegar félagsmaður Krafts fellur frá vegna krabbameins eða afleiðingum þess. Útfararkostnaður er oft mjög mikill og bætist við þann kostnað sem þegar hefur verið greiddur vegna undanfarinna veikinda hins látna.

Óskabrunnurinn

Óskabrunnur Krafts er ætlað að létta líf greindra félagsmanna sem eru inniliggjandi á heilbrigðisstofnun, vegna meðferðar, afleiðinga veikindanna eða njóta aðhlynningar í heimahúsi. Með því að verða við óskum þeirra vonumst við til að gera stundir þeirra bærilegri og skapa góðar minningar á erfiðum tímum.