Minningarsjóður Krafts
Minningarsjóður Krafts var stofnaður 9. júlí 2019 í minningu góðs félaga, Bjarka Más Sigvaldasonar, sem lést 27. júní 2019 eftir 7 ára baráttu við krabbamein. Sjóðurinn var stofnaður til að heiðra minningu hans og þeirra góðu gilda sem hann stóð fyrir þ.e. að láta veikindin ekki stjórna lífi sínu heldur lifa fyrir daginn í dag.
Tilgangur sjóðsins er að styrkja aðstandendur til að standa straum af útfararkostnaði þegar félagsmaður Krafts fellur frá vegna krabbameins eða afleiðingum þess. Útfararkostnaður er oft mjög mikill og bætist við þann kostnað sem þegar hefur verið greiddur vegna undanfarinna veikinda hins látna. Auk þess hafa félagsmenn Krafts margir hverjir ekki verið á vinnumarkaði um skeið og hafa því ekki rétt á dánarbótum stéttarfélaga.
Allur ágóði af sölu minningarkorta Krafts rennur óskiptur í þennan sjóð.
Reglur sjóðsins
- Minningarsjóður Krafts úthlutar kr. 350.000 til að standa straum af kostnaði við útför félagsmanns í Krafti sem lést af völdum krabbameins eða afleiðingum þess á aldursbilinu 18 – 45 ára.
- Umsóknir skulu berast sjóðnum eigi síðar en 6 mánuðum eftir dánardag. Með umsókn skal fylgja dánarvottorð. Einungis er greitt inn reikning nánasta aðstandanda.
- Árlega ákveður stjórn félagsins hver upphæð styrks er úr minningarsjóði Krafts eftir að ársreikningur félagsins liggur fyrir.
- Við sérstakar aðstæður tekur stjórn Krafts styrkumsókn til skoðunar.