Alvarleg veikindi geta bæði þjappað fólki saman og sundrað því. Sambönd snúast ekki bara um kynlíf heldur traust, vináttu og skilning. Mundu að makinn þinn er líka hræddur og óöruggur og slíkar tilfinningar geta birst í ýmsum myndum. Þess vegna skiptir hreinskilni svo miklu máli og það að vera dugleg að tala saman.
Vissulega getur hlutverkaskipan breyst í sambandinu þegar annar aðilinn er að fást við alvarlegan sjúkdóm og maki orðið að eins konar umönnunaraðila. En þá reynir mikið á gagnkvæmt traust. Hafðu í huga að þetta er tímabil sem gengur yfir og því er nauðsynlegt að sýna þolinmæði.