Hátíðir eins og jól, páskar, brúðkaupsdagur, afmæli, fermingardagur og fleiri dagar reynast mörgum erfiðir þegar ástvinur hefur fallið frá. Á þeim stundum er söknuðurinn oft sárastur. Hátíðisdagar gefa þér tækifæri til að líta yfir farinn veg, sjá hvert tími og aðstæður hafa leitt þig, draga af því lærdóm og ekki síður að horfa fram á veginn. Og þó ekki væri annað þá minna þeir þig á að þú ert þó komin(n) þetta langt og það er í sjálfu sér næg ástæða til að halda daginn hátíðlegan. Þú getur búið þig undir þessa daga með ýmsum hætti.