Skip to main content

Félög og stofnanir sem sinna krabbameinsveikum og aðstandendum

Kraftur

Kraftur er stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur. Félagið er hagsmuna- og stuðningsfélag fyrir ungt fólk á aldrinum 18-40 ára. Aðstandendur geta einnig gerst félagsmenn, án tillits til aldurs.

Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins

Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins er upplýsinga- og stuðningsþjónusta fyrir fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur. Þar starfa hjúkrunarfræðingar, félagsráðgjafar, sálfræðingur og kynfræðingur. Boðið er upp á fræðslu, viðtöl, faglega ráðgjöf, djúpslökun og fleira, jafnt fyrir einstaklinga sem hópa. Hægt er að koma án þess að gera boð á undan sér eða panta tíma.

Á vegum Ráðgjafarþjónustunnar eru haldin ýmis námskeið og fræðslufundir, má þar nefna námskeið í núvitund, hugrænni atferlismeðferð meðal annars við svefnvanda, þreytu í kjölfar krabbameinsmeðferðar, einbeitingu og minni. Einnig er boðið upp á sogæðabjúgsnámskeið, fræðslufundi um réttindamál og fræðslu fyrir fólk sem nýlega hefur greinst með krabbamein. Hádegisfyrirlestrar og örráðstefnur eru reglulega um hin ýmsu málefni er tengjast því að greinast með krabbamein.

Opið er alla virka daga frá kl. 9-16. Hægt er að hringja í gjaldfrjálst símnúmer 800 4040 eða senda tölvupóst á radgjof@krabb.is.

Nánari upplýsingar um Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagins er á heimasíðu Krabbameinsfélagsins.

Krabbameinsfélag Íslands

Aðild að Krabbameinsfélagi Íslands eiga 20 svæðafélög og 5 stuðningshópar en að auki eru nokkrir aðrir stuðningshópar starfandi sem eiga ekki beina aðild að Krabbameinsfélagi Íslands.

Þjónustuskrifstofur Krabbameinsfélaganna eru víðsvegar um landið þ.e. Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri, Austfjörðum, Selfossi, og Reykjanesbæ veita upplýsingar, ráðgjöf og stuðning.

Stuðningshópar einbeita sér gjarnan að sérstæðari málum en þeir eru eftirfarandi:

Ljósið

Ljósið er heilbrigðisstofnun með fjölbreytta þjónustu fyrir þann sem greinst hefur með krabbamein og nánustu fjölskyldumeðlimi.

Í Ljósinu starfar þverfaglegt teymi sérfræðinga. Má þar nefna, iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara (meðal annars með sérhæfingu í sogæðanuddi), sálfræðinga, næringarfræðing, markþjálfa, íþrótta- og heilsufræðinga, heilsunuddara og listmeðferðarfræðing. Ljósið býður einnig upp á fjölbreytt námskeið af ýmsu tagi og þar eru einnig starfandi kyn- og aldurstengdir jafningjahópar.

Nánari upplýsingar um þjónustu Ljóssins og dagskrá er á heimasíðu félagsins.

Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna – SKB

Árlega greinast 12-14 börn með krabbamein á Íslandi.

Tilgangur SKB er að styðja þau og aðstandendur þeirra, einkum til andlegrar og líkamlegrar heilsueflingar. Það sinnir fræðslu- og útgáfustarfsemi um sérstöðu og þarfir krabbameinsveikra barna og um síðbúnar afleiðingar eftir krabbameinsmeðferð.

Félagið á tvær íbúðir í Reykjavík fyrir fjölskyldur af landsbyggðinni og það styður starfsfólk Barnaspítala Hringsins til að efla sig faglega.

SKB er rekið fyrir sjálfsafla- og gjafafé. Nánari upplýsingar á heimasíðu félagsins.

Styrktarfélagið Göngum saman

Styrktarfélagið Göngum saman hefur það að markmiði að styrkja grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini en þær eru undirstaða þess að lækning finnist í framtíðinni.

Félagið leggur áherslu á mikilvægi hreyfingar bæði til heilsueflingar og til að afla fjár í styrktarsjóðinn. Nánari upplýsingar á heimasíðu félagsins.

Bergmál

Tilgangur Bergmáls er að hlynna að krabbameinssjúkum, blindum, öldruðum og öðrum þeim er búa við langvarandi sjúkdóma.

Félagið stendur fyrir orlofsvikum í Bergheimum á Sólheimum í Grímsnesi fyrir skjólstæðinga sína yfir sumarið sem er þeim að kostnaðarlausu auk samverustunda yfir veturinn.

Nánari upplýsingar á heimasíðu félagsins.

Heilsustofnunin NLFÍ Hveragerði

Stofnunin tekur á móti krabbameinsveiku fólki í endurhæfingarmeðferð og tekur við tíu manns á hverjum tíma og koma einstaklingar með beiðni þar um, ýmist frá Landspítalanum, krabbameinslækni eða heimilislækni.

Markmið meðferða NLFÍ er að auka líkamlegan styrk, efla andlega, líkamlega og félagslega heilsu og auka lífsgæði. Einstaklingsmiðuð þjálfun er hluti af meðferðinni og unnið er að því að þátttakendur nýti sér hollt og fjölbreytt mataræði. Að þátttakendur finni þá leið sem best hentar til að draga úr streitu og álagi í daglegu lífi, bæta svefn, setja sér markmið og vinna að þeim.

Sjá nánar á heimasíðu Heilsustofnunar.

Reykjalundur

Reykjalundur er rekinn á þjónustusamningi við Sjúkratryggingar Íslands, í þeim samningi er ekki gert ráð fyrir neinni endurhæfingu fyrir krabbameinsgreinda.

Sjúklingar með lungnakrabbamein og önnur mein í brjóstholi falla undir skilgreint verksvið lungnasviðs samkvæmt þjónustusamningi við hið opinbera. Fólk með krabbamein í brjóstholi og lungum hefur fengið endurhæfingu á lungnasviði. Allir læknar geta sent beiðni um endurhæfingu fyrir skjólstæðinga sína. Sjá nánar á heimasíðu Reykjalundar.

 

 

MERKINGAR:

FINNUR ÞÚ EKKI ÞAÐ SEM ÞÚ ERT AÐ LEITA AÐ?

Senda okkur póst Messenger Senda okkur spurningu