Skip to main content

Hvað er gott fyrir mig að gera í lyfjameðferð?

Þessi listi er byggður á bæklingnum Léttu þér lífið í lyfjameðferð og konunum úr hópnum Kastað til bata:

  • Mundu að setja ÞIG í fyrsta sæti, þú þarft að vera í forgangi. Ekki vera með sektarkennd eða sjálfásakanir vegna einhvers sem liðið er. Spurðu þig hvort það sem þú ert að gera/borða/drekka sé það sem þú vilt þessa stundina.
  • Vertu ófeimin/-n við að þiggja aðstoð sem þér er boðin og hikaðu ekki við að segja nei, ef það hentar ekki. Þínar þarfir eru í forgangi. Prófaðu þá þjónustu sem býðst til dæmis viðtöl, námskeið og fleira. Sumt gæti gagnast þér.
  • Hugsaðu jákvætt þegar þú ferð í lyfjagjöf og mundu að þetta ferli er þér til góðs. Reyndu að láta fara vel um þig á meðan á lyfjagjöfinni stendur. Fáðu teppi og kodda og komdu þér vel fyrir. Vertu í þeim fötum sem þér líður best í. Taktu með þér afþreyingarefni til dæmis bók, tímarit, spjaldtölvu og ef til vill nesti.
  • Haltu vel utan um allt sem viðkemur meðferðinni og skráðu inn á dagatal til að halda yfirsýn og skipulagi. Það er líka mikilvægt að skrá þar skemmtilega viðburði, eins og vinahittinga, tónleika eða stefnumót sem þú getur hlakkað til á meðan á meðferðinni stendur. Gott er að halda líka dagbók, hvort sem er í tölvu eða bók, og skrá þar andlega og líkamlega líðan. Sumir vilja einnig taka myndir á meðan á meðferðinni stendur.
  • Ekki ætla þér um of þó þú eigir mikinn „frítíma“. Það getur verið gott að finna að maður geti sinnt einhverjum störfum á heimilinu en ekki ganga fram af þér. Enginn ætlast til að þú standir í slíku. Þiggðu alla hjálp sem þér býðst eftir því sem þér hentar.
  • Það getur verið gott að hitta aðra sem eru í sömu sporum eða hafa gengið í gegnum það sama.
  • Ekki láta það koma þér á óvart þó þú finnir ekki fyrir einskærum létti og gleði þegar meðferð er lokið. Tilfinningar geta verið blendnar og margir upplifa sig í tómarúmi. Ýmsar andlegar og líkamlegar aukaverkanir geta enn verið til staðar og afstaðan til lífsins getur breyst. Láttu fjölskyldu og vini vita hvernig þér líður og hikaðu ekki við að leita faglegrar aðstoðar ef þörf krefur.

MERKINGAR:

FINNUR ÞÚ EKKI ÞAÐ SEM ÞÚ ERT AÐ LEITA AÐ?

Senda okkur póst Messenger Senda okkur spurningu