Skip to main content

Tékklisti – Hvað þarf ég að vita eftir að ég greinist með krabbamein?

Það eru ýmsar spurningar sem koma upp í huga manns eftir að maður greinist með krabbamein. Við í Krafti gerum okkur grein fyrir því að oft er erfitt að vita hvað maður á að spyrja lækninn um og jafnvel muna hvaða svör hann gaf. Þess vegna getur verið gott að taka upp samtalið og hlusta á það seinna eða taka einhvern með sér í viðtalið.

Kraftur hefur gefið út Tékklista til að auðvelda fólki að fara yfir þá punkta sem gott er að spyrja um. Þú getur nálgast listann hjá Krafti en spurningarnar eru hér að neðan:

  • Hvaða tegund af krabbameini er ég með?
  • Hvaða meðferð hentar mér best? Eru einhverjir fleiri meðferðarmöguleikar í boði?
  • Er tilgangur meðferðarinnar að ég geti lifað með sjúkdómnum eða til að lækna hann?
  • Hvernig veit ég hvort meðferðin skilar árangri? Hvernig er árangurinn mældur?
  • Hvaða mismunandi aukaverkanir geta komið fram? Er eitthvað sem ég get gert til að draga úr eða forðast aukaverkanir?
  • Er eitthvað sem ég þarf að gera áður en meðferð hefst t.d. að fara til tannlæknis og láta taka út tannheilsu mína eða fara í húðflúr á augabrúnum og þess háttar?
  • Getur meðferðin valdið ófrjósemi? Eru einhverjar aðgerðir sem ég eða maki minn eigum kost á áður en lyfjameðferð hefst t.d. eggheimta eða frystingu sæðis?
  • Hvernig lítur meðferðaráætlunin mín út? Get ég fengið hana skriflega? Hvenær mun meðferð byrja og hversu lengi varir hún?
  • Get ég fengið endurhæfingaráætlun og hver aðstoðar mig varðandi það?
  • Hvað geri ég ef ég vil fá álit annars læknis?
  • Hvert get ég farið eða hringt eftir venjulegan opnunartíma ef mér líður illa á meðan á veikindunum stendur?
  • Hvaða hjúkrunarfræðingur er tengiliður minn og hvernig næ ég í hann?
  • Hvernig kemst ég í samband við lækninn minn utan bókaðra viðtalstíma?
  • Hvernig mun meðferðin hafa áhrif á mitt daglega líf? Mun ég geta haldið áfram að vinna eða stunda nám?
  • Má ég vera nálægt fólki, börnum eða barnshafandi konum eftir að ég hef fengið krabbameinslyf eða farið í geisla?
  • Má ég stunda kynlíf þegar ég er í meðferð?
  • Hvert get ég leitað út af réttindum mínum (veikindaréttur, sjúkradagpeningar, endurhæfingarlífeyrir o.þ.h.)? Hvar get ég fundið frekari upplýsingar og getur einhver hjálpað mér?
  • Má ég æfa meðan ég er í meðferð? Er eitthvað sem ég má ekki borða eða gera á meðan á meðferð stendur?
  • Get ég fengið sálrænan stuðning hjá ráðgjafa eða sálfræðingi? Hvar get ég fengið sálfélagsstuðning eins og jafningjastuðning? Geta aðstandendur mínir fengið stuðning?
  • Hvernig segi ég börnunum mínum þetta, hvert get ég leitað til að fá aðstoð með það?

MERKINGAR:

FINNUR ÞÚ EKKI ÞAÐ SEM ÞÚ ERT AÐ LEITA AÐ?

Senda okkur póst Messenger Senda okkur spurningu