Skip to main content

Hvaða áhrif hefur krabbameinsmeðferðin á frjósemi mína?

Það er misjafnt hvernig krabbameinsmeðferðir hafa áhrif á kynin.

Konur

Konum, sem gangast undir krabbameinsmeðferð, er ekki ráðlagt að verða barnshafandi á meðan á meðferð stendur þar sem krabbameinsmeðferðin getur skaðað fóstrið. Læknar mæla með því að beðið sé í 3-6 mánuði eftir meðferð áður en þú ákveður að reyna að eignast barn. Ræddu þau mál við lækninn þinn því hinar ýmsu tegundir krabbameina og krabbameinsmeðferða hafa mismunandi áhrif á líkamann.

Í vissum tilfellum er hægt að örva eggjastokka konunnar áður en krabbameinsmeðferð hefst til að hægt sé að ná úr þeim eggjum til að nota síðar í tæknifrjóvgun. Eggheimta er síðan framkvæmd hjá konunni. Egg geta verið frjóvguð og síðan fryst og kallast þá fósturvísar og þá er hægt að geyma í allt að tíu ár samkvæmt íslenskum lögum. Einnig er hægt að frysta ófrjóvguð egg og þau er líka hægt að geyma í 10 ár. Ákveðir þú að láta ekki taka egg, má leita til eggjagjafa síðar. Gjafaegg má frjóvga með sæði maka eða sæðisgjafa og koma fyrir í legi þínu.

Hjá meirihluta kvenna hætta mánaðarlegar blæðingar á meðan á krabbameinslyfjameðferð stendur. Hjá sumum lagast það að meðferð lokinni. Það getur tekið allt frá sex mánuðum til eins árs fyrir tíðirnar að jafna sig eftir meðferð. En hafa skal í huga að margar konur verða ófrjóar eða eiga erfitt með að verða barnshafandi eftir krabbameinsmeðferð.

Karlmenn

Karlmenn geta framleitt sæðisfrumur alla ævi. En á meðan á meðferð stendur getur sæðisframleiðsla orðið takmörkuð eða engin. Hjá flestum kemur þetta til baka en þó geta einhverjir orðið fyrir langvarandi áhrifum. Karlmönnum sem greinast með krabbamein stendur til boða frysting á sæðisfrumum og þær er hægt að geyma í allt að tíu ár. Oftast er þá reynt að frysta sæðisfrumurnar í nokkrum skömmtum. Ef nota á frumurnar síðar verður í langflestum tilfellum að gera smásjárfrjóvgun þar sem gæði sæðisins er skert eftir frystinguna.

MERKINGAR:

FINNUR ÞÚ EKKI ÞAÐ SEM ÞÚ ERT AÐ LEITA AÐ?

Senda okkur póst Messenger Senda okkur spurningu