Þeir sem missa náinn ástvin finna fyrir miklu tómarúmi í lífi sínu eftir jarðarförina og í langan tíma á eftir. Staðreyndin er sú að fólk er oft mjög duglegt að hafa samband dagana fyrir jarðarför og strax á eftir en fljótlega getur sambandið farið að minnka eða breytast. Bæði getur fólk verið feimið við að tala um þann látna og einnig talið að aðstandendur séu farnir að jafna sig og þurfi ekki á eins miklum stuðningi að halda.
Hér eru nokkur ráð:
- Aðstandendur og vinir syrgjenda reyna sitt besta til að vera til staðar fyrir fólkið sitt sem líður illa en fólk bregst mismunandi við. Oft getur það farið svo að hvatningarorð eins og til dæmis komum út, gerum eitthvað skemmtilegt, fari alveg öfugt ofan í þá sem eru á viðkvæmum tímapunkti í lífi sínu.
- „Þú ættir/þú munt/þú skalt“. Ekki tala í boðhætti og ekki reyna að taka stjórnina í tilfinningalífi annarrar manneskju. Hafir þú góð ráð er vænlegra að byrja setningar á „Hefurðu hugsað út í… / Þú gætir…. “
- Að gera lítið úr tilfinningum syrgjenda með því að segja þeim að gráta ekki eða segja þeim að vera ekki með sektarkennd er rangt. Þetta er eðlilegur hluti sorgarferlis og þarf að fara í gegnum, ekki í kringum.
- Varastu að segja syrgjandi manneskju hvernig á að takast á við sorgina. Það er ekki á þínu valdi hvernig fólk kýs að takast á við sína sorg. Það sem manneskjan þarf frá þér er að þú sýnir henni stuðning.
- Passaðu þig að dæma ekki hegðun manneskju sem gengur í gegnum sorg. Þú getur ekki vitað hvernig henni er innanbrjósts.
- Þótt viðkomandi líti út fyrir að hafa allt á hreinu við fyrstu sýn gæti mikill sársauki enn leynst innra með honum. Ekki hrósa án þess að vita hvernig syrgjanda líður í raun. Að fá hrósið „Þú ert svo sterk/ur“ þegar manni líður alls ekki þannig gefur þau skilaboð að það sé ekki velkomið að ræða vanlíðan sína við þig.
- Ekki líkja einum missi við annan. Hver einasti missir er einstakur og þótt þér gangi gott eitt til getur það farið illa í þann sem syrgir.
- Það getur verið varasamt að tala mikið um eigin lífsreynslu þegar þú ert að hlúa að einstaklingi í sorg. Þrátt fyrir að oft geti verið mikil huggun í að tala við manneskju sem hefur gengið í gegnum svipaða reynslu og maður ætli sér eingöngu að sýna samkennd og innlifun með syrgjanda er ekki sama hvernig farið er að því. Setningar á borð við „Ég veit nákvæmlega hvernig þér líður“ eða „Ég skil þig fullkomlega“ geta látið syrgjanda líða líkt og þú sért að gera lítið úr reynslu hans eða sársauka.
- Leyfðu syrgjandanum að ráða ferðinni í sorgarferlinu. Vertu ekki feimin(n) við að tjá samhug, gráta með honum og vera með honum í sársaukanum. Gott er að vera á verði því sumir eiga það til að lokast inni í sorginni og þá er gott að vita hvert hægt er að leita eftir stuðningi frá fagaðilum.
- Talaðu um þann látna því þeim sem syrgja þykir það að jafnaði mjög gott og finnst jákvætt að láta minnast hans og að það sé talað um hann.
- Vinahópur getur tekið sig saman og skipt á milli sín tíma til að sinna syrgjandi vini og haft samráð sín á milli um heimsóknir og stuðning.
- Ekki hætta að hafa samband þó þú fáir dræmar undirtektir, viðkomandi vilji ekki alltaf koma út og sé ekki hrókur alls fagnaðar.
- Virkilega erfiðir dagar eða tímabil sem fólk þarf að takast á við eru til dæmis afmælisdagur, jól, brúðkaupsdagur, dánardagur og það er dásamlegt ef fólk man eftir því og hefur samband og sé syrgjanda þá innan handar.