Skip to main content

Hvernig og hvers vegna þarf að segja börnunum frá?

Það er mjög eðlilegt að þú vitir ekki hvernig segja skal börnum frá krabbameininu. Hversu mikið ættirðu að segja? Hvernig útskýrir þú veikindin á mildan hátt án þess að vekja ótta? Og hversu mikið ættu börnin að vita og taka þátt í því sem er að gerast? Ef börnin fá að taka þátt í ferlinu er hægt að styðja þau í því að skilja framvindu veikindanna á jákvæðan hátt. Það er óhjákvæmilegt að þau hafi áhrif á börnin en þú getur haft áhrif á hvernig sú reynsla verður.

 • Krabbamein hefur áhrif á alla í fjölskyldunni og börnin eiga rétt á að vita hvað er að gerast.
 • Traust – ef börnin finna að þau eru leynd mikilvægum hlutum þá eiga þau oft erfiðara með að treysta öðrum í framtíðinni, auk þess sem þeim finnst þau þá ekki vera hluti af fjölskyldueiningunni eða ekki skipta máli.
 • Börn skynja spennu og áhyggjur foreldra. Þau ímynda sér sjálf hluti ef þeim er ekki sagt frá jafnvel að veikindin séu þeim að kenna.
 • Ef þú segir þeim ekki hvað er að gerast gætu þau frétt það frá öðrum.
 • Börn eiga erfitt með að meta sjúkdómseinkenni, við þurfum að hjálpa þeim að skilja aðstæður til að draga úr kvíða.

Hvernig og hvað segi ég börnunum mínum?

 • Reyndu að útskýra á einfaldan hátt og notaðu hugtök sem barnið skilur og taktu þar mið af aldri þess. Það getur líka reynst vel að útskýra á myndrænan hátt til dæmis með teikningu.
 • Segðu frá veikindum þínum og meðferðinni sem þú þarft að gangast undir.
 • Talaðu um hvernig meðferðin getur haft áhrif á útlit þitt og orku.
 • Segðu frá því sem framundan er og á hvern hátt sjúkdómurinn og meðferðin geta haft áhrif á daglegt líf barnsins.
 • Börn geta þolað óvissu og ef þú hefur ekki svörin segðu þá bara „ég veit það ekki“ frekar en að gefa þægilegt svar sem huggar.
 • Ef umræðan verður þér of erfið þá segir þú að þið getið ekki talað meira um þetta núna því þér líði illa en þið skulið tala betur um það seinna (nefndu stað og stund).
 • Börnin þurfa að vita að krabbameinið er ekki þeim að kenna og er ekki smitandi. Það kemur ekki vegna þess að krakkar séu óþekkir eða hugsi ljótt og það er heldur ekki þeim að kenna að hafa ekki passað uppá foreldra sína eða til dæmis bannað þeim að reykja.
 • Hlustaðu á börnin – þá veistu hvaða áhyggjur þau hafa og hvaða upplýsingar þau þurfa að fá. Spurðu hvað þau halda að krabbamein sé og leiðréttu misskilning sem fram kann að koma.
 • Sýndu einlægni og segðu þeim frá því hvernig þér líður. Þá er auðveldara fyrir börnin að segja frá sínum tilfinningum auk þess sem þau skilja frekar vanlíðan þína og taka síður til sín ef þú bregst illa við.
 • Segðu börnunum að það verði áfram hugsað um þarfir þeirra og láttu vita hverjir muni hjálpa til við það.
 • Barnið þitt gæti spurt hvort þú munir deyja. Þó það sé erfitt að ræða það er mikilvægt að það verði ekki að bannorði í samtali ykkar. Til dæmis getur þú sagt að krabbamein sé heimskur sjúkdómur og að sumir deyi en læknarnir geti mjög oft læknað fólk.

Fleiri gagnlegir punktar hvernig þú getur sagt börnunum frá krabbameininu? 

 • Gefðu börnunum upplýsingar í skömmtum.
 • Hvaða sjúkdóm er um að ræða og hvað hann heitir (brjóstakrabbamein, hvítblæði…).
 • Hvar í líkamanum meinið er.
 • Hvernig meðferð mun fara fram.
 • Hvaða áhrif veikindin munu hafa á líf barnanna.
 • Bjóddu upp á umræðuna við og við.
 • Vertu fyrirmynd í því að vera tilfinningalega opin(n), segðu hvernig þér hefur liðið en samt á yfirvegaðan hátt þannig að barnið finni áfram öryggi hjá þér en fari ekki í umönnunarhlutverkið.
 • Notaðu dæmi svo sem: „Sumir krakkar verða pirraðir/reiðir/áhyggjufullir þegar foreldrar þeirra eru veikir og sumir halda meira að segja stundum að það sé þeim að kenna ….“
 • Gættu þess að börnin fái nauðsynlegar upplýsingar: „Pabbi er skyndilega verri, hann fékk sýkingu og er mjög veikur…“
 • Leyfðu börnunum að taka þátt í ferlinu. Þau mega sjá þig í meðferð eða á spítalanum því þá átta þau sig oft betur á hlutunum.
 • Ef barnið þitt er í skóla eða leikskóla eða í tómstunda- eða íþróttastarfi þarftu að láta vita þar hvernig ástandið er.

 

MERKINGAR:

FINNUR ÞÚ EKKI ÞAÐ SEM ÞÚ ERT AÐ LEITA AÐ?

Senda okkur póst Messenger Senda okkur spurningu