Í gær, sunnudaginn, 6. maí, stóð Kraftur og íþróttafélögin á Akureyri fyrir perluviðburði. En um var að ræða annan perluviðburð félagsins þar sem perluð eru armbönd í fánalitunum og íþróttafélög og bæjarfélög hafa tækifæri á að hreppa perlubikarinn. Armböndin eru seld til stuðnings Krafti og sýna einnig samstöðu með íslenska fótboltaliðinu á HM.
ÍBV og Eyjamenn riðu á vaðið í miðjum apríl og perluðu 1538 armbönd. Eyjamenn skoruðu á Akureyringa og íþróttafélögin þar til að ná af þeim Perlubikarnum. Akureyringar urðu að sjálfsögðu við áskoruninni og gerðu gott betur en alls voru perluð 2302 armbönd í Íþróttahöllinni Akureyri í gær.
Fjöldi manns mættu á svæðið eða um 450 manns og var mikið stuð. Geir Kristinn Aðalsteinsson, formaður ÍBA var að vonum ánægður með mætinguna og ákvað að skora á Austurland að gera enn betur. „Það er frábært að sjá hversu margir komu hér í Íþróttahöllina til að sýna samstöðu og styðja unga krabbameinsgreinda og aðstandendur í leiðinni. Við skorum á Austurland og Ungmenna – og íþróttafélagið á Austurlandi (UÍA) að taka höndum saman og reyna að ná perlubikarnum en til að öðlast hann þurfa þau að perla a.m.k. meira en 2302 armbönd á fjórum tímum. Þetta er skemmtileg stund fyrir alla fjölskylduna og gaman að taka þátt í þessu verkefni með Krafti,“ sagði Geir að lokum.