Á laugardaginn síðasta, 12.maí, stóð Kraftur og Tólfan fyrir perluviðburði í stúkunni Laugardalsvelli þar sem perluð voru armbönd í fánalitunum. Fjölmenni var á svæðinu en markmið Tólfunnar var að slá Íslandsmet sem stóð í 3972 armböndunum.
Margir lögðu leið sína í Laugardalinn til að perla armböndin en um 750 manns komu við til leggja málefninu lið og sýna samstöðu með íslenska landsliðinu í fótbolta. Ýmsir tónlistarmenn stigu á stokk og má þar nefna Hreim, Stefaníu Svavars og karlakórinn Esju en Sóli Hólm sá um að halda uppi stuðinu á meðan á viðburðinum stóð. Þar bar hæst að landsliðsþjálfararnir, Heimir og Freyr, öttu kappi í perlun á armbandi undir æsispennandi lýsingu Gumma Ben. Á ótrúlegan hátt enduðu þeir á að klára armbandið á sama tíma og því jafntefli staðreynd. Armböndin þeirra voru svo seld á uppboði í lok keppni.
Mikið kapp var í viðstöddum að ná að slá Íslandsmetið og náðist það á loka metrunum í 15 mínútna framlengingu en þegar klukkan sló var búið að perla 3983 armbönd, og lokatölur enduðu í 4233 þegar öll armbönd voru kominn í hús.
Armböndin verða til sölu á vefverslun Krafts, Errea, Útilíf, Jóa Útherja, Ölveri og fyrir utan Laugardalsvöll fyrir komandi leiki í sumar. Armböndin eru alfarið seld til stuðnings Krafti en sína um leið samstöðu með íslenska landsliðinu í fótbolta.
Kraftur vill þakka öllum þeim sem lögðu leið sína í Laugardalinn, KSÍ fyrir samstöðuna og húsnæðið sem og öllum styrktaraðilum, sjálfboðaliðum og Tólfunni fyrir frábært samstarf.