Einn af viðburðunum á Landsmótsins á Sauðárkróki síðustu helgi var Perlað af Krafti þar sem keppst var við að ná Íslandsmeti í perlun armbanda. Um 250 manns lögðu leið sína í Árskóla við á Sauðárkróki og perluðu af kappi.
„Hugmyndin var að reyna við Íslandsmetið sem var sett af stuðningsmönum íslenska landsliðsins og Tólfunni í maí síðastliðnum. Þrátt fyrir mikið keppnisskap þá náðu þátttakendur á Landsmótinu ekki því meti og stendur Íslandsmetið því enn í 3983 armböndum“, segir Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts. Alls voru þó perluð 1386 armbönd sem er frábær árangur miðað við að fullt af öðrum viðburðum og keppnum áttu sér stað á sama tíma. Á sama tíma og sama stað var einnig keppt í pönnukökubakstri sem margir perlarar nutu góðs af þar sem þau gátu gætt sér á ljúffengum pönnukökum inn á milli.
„Það er alveg hreint ómetanlegt hvað mikið af fólki var tilbúið að koma og perla með okkur. En allur ágóði af sölu armbandanna rennur til Krafts félags ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur. Samstaðan var einstök og það er það sem skiptir mestu máli að fólk komi saman að hjálpi okkur að hjálpa öðrum“, segir Hulda enn fremur.