Skip to main content

Sunnlendingar hreppa Perlubikarinn

By 27. september 2018mars 25th, 2024Fréttir

Kraftur stóð fyrir keppninni Perlubikarinn í sumar þar sem íþróttafélög, sveita- og bæjarfélög voru hvött til að etja kappi í perlun armbanda í þágu félagsins. Viðburðir voru víðsvegar um land, allt frá Austfjörðum, norðurlandi og vestur í land sem og á höfuðborgarsvæðinu. Alls tóku ellefu íþróttafélög og sveitafélög þátt í keppninni.

Það voru Sunnlendingar og HSK sem höfðu vinninginn í Perlubikarnum en þau perluðu 2308 armbönd á fjórum tímum þann 20. júní síðastliðinn. Í öðru sæti urðu Akureyringar og  íþróttafélagið Breiðablik í því þriðja. „Það er einstaklega gaman að taka þátt í verkefni sem þessu og eflir þetta bæði keppnisskapið í okkur öllum sem og samhuginn. Að taka þátt í góðgerðarverkefni og keppa í leiðinni er alls ekki leiðinlegt fyrir íþróttafélög eins og okkur“, sagði Anný Ingimarsdóttir frá HSK þegar hún tók við bikarnum í gær.

Yfir 18.000 armbönd voru perluð í Perlubikarnum og eru þau öll seld til styrktar Krafti, stuðningsfélagi ungs fólk sem greinst hefur með krabbamein og rennur allur ágóði armbandanna til Krafts. Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts, er að vonum ánægð með árangurinn. „Við óskum Sunnlendingum og HSK innilega til hamingju með sigurinn í Perlubikarnum. Það er alveg hreint ómetanlegt hvað allir voru tilbúnir að taka þátt í þessari keppni með okkur og dásamlegt að upplifa hversu margir lögðu hönd á perlu“, sagði Hulda þegar hún afhenti Anný bikarinn sem er að sjálfsögðu perlaður. „Hver veit nema við skellum í Perlubikarinn 2019 næsta sumar þar sem Sunnlendingar þurfa e.t.v að verja titilinn gagnvart nýjum eða reyndum keppendum og við gerum Perlubikarinn að farandsbikar í leiðinni“, bætti Hulda við í lokinn.

Ljósmynd/sunnlenska.is – Guðmundur Karl