Þann 20. mars síðastliðinn hélt Kraftur örráðstefnunni – Fokk ég er með krabbamein! í Stúdentakjallaranum. Á örráðstefnunni fjölluðum við um af hverju það er þörf á félagi eins og Krafti, hvað hefur áunnist í hagsmunabaráttu þeirra sem greinast með krabbamein síðastliðin ár og hvernig staðan er í Danmörku. Einnig stigu nokkrir Kraftsfélagar upp og sögðu sína reynslusögu.
Um 100 manns mættu í Stúdentakjallarann og hlustuðu á erindin sem voru frá Hildi Björk Hilmarsdóttur og Daníel Reynissyni, frumkvöðlum Krafts um stöðuna hvernig hún var fyrir 20 árum síðan þegar félagið var stofnað. Signe Thydal, verkefnastjóri Ungkræft, systurfélags Krafts í Danmörku kynnti hvernig hugað er að ungum krabbameinsgreindum þar í landi. En Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts, tók svo saman hvað hefur áunnist á síðustu tuttugu árum í þjónustu og hagsmunabaráttu og krabbameinsgreinda á Íslandi, hvernig staðan er í dag og hvert við stefnum. Fjölmiðlamaðurinn Atli Már Steinarsson var fundarstjóri og tónlistarmaðurinn Sigvaldi Gunnarsson tók nokkur lög fyrir gesti.
Í stuttu máli var umfjöllunin eins og fram kemur hér að neðan en það má líka horfa á örráðstefnuna í fullri lengd hér. :
Það eru einungis um 30 ár síðan að sérstök krabbameinsdeild var stofnuð á Íslandi og hefur þjónusta við krabbameinsgreinda aukist til muna á síðustu árum en við getum vissulega bætt okkur. Stuðningsfélög eins og Kraftur hafa litið dagsins ljós og svo hefur Ljósið og Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins einnig bæst í hópinn varðandi þjónustu til Krabbameinsgreindra. Sama ár og Kraftur var stofnaður þ.e. árið 1999 var Líknardeildin stofnuð með dyggum stuðningi Oddfellow. Þegar tekinn er samanburður við Danmörku þá er enn vissulega dýrara að greinast með krabbamein á Íslandi en við erum að nálgast þau óðfluga er varðandi kostnaðarþátttöku sjúklinga. Þjónustan sem er verið að veita er sambærileg en Ísland er eftirá varðandi að endurhæfing sé partur af meðferð og endurgjaldslaus. Danir taka líka ríkari þátt varðandi kostnað á frjósemisverndandi úrræði heldur en gerist á Íslandi.
Það var miklu meiri þjónusta áður í höndum sjúkrahúsanna og hins opinbera sem hefur orðið minni síðustu 10 árin og því hafa félagasamtök eins og Kraftur, Ljósið og Ráðgjafarþjónustan brugðist við þeirri þörf sem hefur skapast þar af leiðandi. Á Íslandi bjóða ýmsar stofnanir og félagasamtök upp á fjölbreytta og sérhæfða endurhæfingarþjónustu en skortur er á sérhæfðu fagfólki og fjármagni til málaflokksins. Ljósið, Heilsustofnun Hveragerðis, Reykjalundur, Ráðgjafarþjónustan, Kraftur og fleiri bjóða upp á bæði andlega og líkamleg endurhæfingarúrræði en við þurfum stjórnvöld með okkur. Við hjá Krafti viljum að greiðsluþátttaka sjúklinga verði á pari við Norðurlöndin.
Það er vissulega búið að taka skref í rétta átt en við eigum langt í land er varðar tannlækningar, sálfræðiþjónustu og tæknifrjóvgun þ.e. að þetta verði niðurgreitt af Sjúkratryggingum eins og önnur heilbrigðisþjónusta. Við viljum einbeita okkur að það verði sett á laggirnar bráðamótttaka fyrir krabbameinssjúklinga og að endurhæfing sé hluti af meðferð og að fólk fái einstaklingsmiðaða endurhæfingaráætlun. Að lokum viljum við að sett verður upp kerfi sem virkar eins og leiðsögumaður sjúklinga sem leiðir þá í gegnum það ferli sem tekur við eftir greiningu og hjálpar þeim með þau atriði sem hafa þarf í huga. Hvaða styrki þarf að sækja um, hver réttur þeirra sé og í raun einstaklingur sem að viðkomandi getur leitað til á öllum stundum meðan á veikindaferlinu stendur.
Það þarf að koma stefnumótandi heildarsýn frá stjórnvöldum um hvernig skal þjónusta og koma til móts við stækkandi hóp einstaklinga sem greinast með krabbamein og lifa eftir veikindin samanber krabbameinsáætlunina sem var nýverið samþykkt. Við eigum fullt af frábæru starfsfólki sem er með víðtæka reynslu og þekkingu á sviði krabbameinslækninga en það er áhyggjuefni hversu fáir krabbameinslæknar eru starfandi og vantar okkur fleiri sérfræðinga til að koma til móts við þennan hóp. En við erum fullviss um það að saman getum við boðið upp á framúrskarandi þjónustu fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur á öllum sviðum en það krefst samvinnu allra aðila þ.e stjórnvalda, Landspítala, félagasamtaka og almennings.
Við viljum þakka öllum innilega fyrir komuna og þeim sem komu fram, voru með erindi og deildu af sinni reynslu. Þökkum einnig VÍS, sem veitti Krafti styrk út Samfélagssjóði sinum til að halda málþingið, og Stúdentakjallaranum ásamt þeim aðilum sem gáfu vinnu sína fyrir ráðstefnuna.
Hér má sjá myndir af ráðstefnunni.