Sumir hafa þörf á að segja öllum að þeir séu með krabbamein. Aðrir líta á veikindin sem sitt einkamál og vilja ekki deila reynslu sinni með of mörgum. Það er engin ein rétt leið. Margir kvíða viðbrögðum annarra enda eru þau afar mismunandi. Sumir fyllast vorkunnsemi og láta í ljós samúð sína á meðan aðrir halda uppörvandi ræðu og segja reynslusögur af ættingjum og góðvinum. Margir deila alls konar ráðum í baráttunni við krabbameinið. Enn aðrir hreinlega þagna og vita ekkert hvað þeir eiga að segja, verða vandræðalegir og láta frá sér vanhugsaðar spurningar og athugasemdir. Að baki alls þessa er þó góður hugur og mundu að margir vita hreinlega ekki hvernig þeir eiga að bregðast við.