Minningarsjóður Baldvins úthlutaði Krafti nýverið 500.000 krónur og var styrkurinn ánafnaður NorðanKrafti. Þetta var í fyrsta sinn sem Minningarsjóðurinn úthlutaði styrkjum en sjóðurinn var stofnaður í júní af fjölskyldu og vinum Baldvins Rúnarssonar sem lést þann 31.maí síðastliðinn eftir fimm ára baráttu við krabbamein.
Baldvin fæddist á Akureyri 15. janúar 1994 og lést einungis 25 ára gamall. Hann var mikill félags- og íþróttamaður og er markmið sjóðsins að styrkja einstaklinga, félög eða hópa á sviði íþrótta- og mannúðarmála í anda Baldvins. „Það er okkur mikill heiður að taka á móti styrknum frá Minningarsjóði Baldvins. Styrkurinn er sérstaklega ánafnaður NorðanKrafti sem er samstarfsverkefni Krafts og Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis. Styrkurinn mun svo sannarlega koma að góðum notum þar sem við erum að auka starfsemi okkar hér fyrir norðan,“ sagði Sigríður Þorsteinsdóttir stjórnarmeðlimur í Krafti við afhendingu styrksins. NorðanKraftur er stuðningshópur fyrir ungt fólk á aldrinum 45 ára og yngri sem greinst hefur með krabbamein, óháð því hvaða meðferð var gefin vegna sjúkdómsins, hvort meðferð sé lokið eða hvenær meðferð lauk.
Kraftur þakkar aðstandendum Minningarsjóðs Baldvins innilega fyrir styrkinn sem verður nýttur í starfsemi Krafts til að styðja við bakið á ungu fólki sem greinist með krabbamein og aðstandendum á landsbyggðinni.
Myndin er frá afhendingu styrksins en Minningarsjóður Heimahlynningar á Akureyri og DM félag Íslands fengu líka styrk úr Minningarsjóði Baldvins.