Guðbjörg Þóra Guðmundsdóttir sem hefur verið búsett í Noregi síðastliðin 10 ár ásamt fjölskyldu sinni gerði sér lítið fyrir og hélt hlaup í sveitinni sinni, Kirkjuferju í Ölfusi,nú í júlí. Þetta gerði hún í tilefni af 40 ára afmælinu sínu og að 5 ár væru liðin frá því að hún kláraði krabbameinsmeðferð. Allir þeir sem að tóku þátt í hlaupinu greiddu þátttökugjald sem var til styrktar Krafti og einnig var hægt að gefa frjáls framlög.
Um var að ræða 10 kílómetra hlaup undir nafninu Guggan2019 og var fólki valfrjálst að hlaupa alla 10 kílómetrana eða snúa við þegar það gat ekki meir. Gaman er að geta þess að elsti þátttakandinn var 76 ára og sá yngsti 9 mánaða. „Ég ákvað að halda hlaup til styrktar Krafti þar sem félagið er mér mjög hugleikið og hef ég sjálf greinst með krabbamein. Það var svo gaman þessa helgi og allir sem vettlingi gátu valdið hjálpuðu til við undirbúninginn og þetta var hreinlega dásamlegt í alla staði,“ sagði Guðbjörg. „Hvað eru svo sem smá harðsperrur ef maður getur lagt svona góðu málefni lið,“ sagði Guðbjörg líka skellihlæjandi þegar hún afhenti Huldu Hjálmarsdóttur, framkvæmdastjóra Krafts, styrkinn.
Alls söfnuðust 200.000 krónur sem hún vildi ánafna í Neyðarsjóð Krafts sem styrkir einstaklinga sem lenda í fjárhagsörðuleikum vegna veikinda sinna. „Það er ótrúlega gaman þegar fólk heldur upp á tímamót sem þessi og lætur gott af sér leiða á sama tíma. Okkur þykir mjög vænt um einstaklingsframtök sem þessi og að fólk vilji leggja málstaðnum lið á þennan hátt,“ sagði Hulda Hjálmarsdóttir við afhendingu styrksins. „Það er ekki sjálfgefið að fólk geri svona og erum við óendanlega þakklát og mun styrkurinn svo sannarlega nýtast vel í stuðningi okkar við ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur,“ sagði hún enn frekar.
Við óskum Guggu til hamingju með afmælið og þessi frábæru tímamót að vera kominn yfir 5 ára múrinn eftir krabbameinsmeðferð!
Sjá meðfylgjandi myndir frá hlaupinu en einnig er hægt að fara á Instagram og slá inn #guggan2019 fyrir fleiri myndir.