Helgina 8.-10. nóvember hélt Kraftur í samstarfi við KVAN endurnærandi og uppbyggjandi helgi fyrir félagsmenn Krafts undir heitinu Lífið er núna helgin. Markmið helgarinnar var að gefa fólki tækifæri á að læra hvernig það getur tekist á við breyttar aðstæður í lífi sínu og um leið kynnst öðrum í svipuðum sporum.
Helgin var haldin í dásamlegu umhverfi hjá Ensku húsunum í Borgarfirðinum og nutu viðstaddir notalegra og uppbyggjandi stunda undir handleiðslu Sössu frá KVAN. Meðal þess var morgunhugleiðsla, styrkleikanálgun, markmiðasetning út frá breyttum aðstæðum og fleira í þeim dúr. Þá kenndi Sassa félagsmönnum handbrögðin í Paellu gerð að hætti Spánverja þar sem allir tóku þátt í eldamennskunni. Einnig var farið í afslöppun og dekur í Krauma og haldnar kvöldvökur með spilum og barsvari (Pub-Quiz).
Lífið er núna helgin var nú haldin í þriðja sinn en þessar helgar eru félagsmönnum að kostnaðarlausu og eru haldnar að hausti og vori. Félagsmenn hafa greint frá því að þessar helgar séu virkilega einstakar, uppbyggjandi og ánægjulegar enda leggur Kraftur mikið uppúr nærandi samveru á meðal jafningja.
Sjá hér nokkrar myndir frá helginni