Í gær, annan í aðventu, komu rúmlega 350 manns saman í Brekkuskóla á Akureyri og perluðu „Lífið er núna“ armband í tilefni af 20 ára afmæli Krafts. En í heildina voru 1284 armbönd perluð sem eru í sannkölluðum norðurljósalitum og seld til styrktar félaginu. Þetta var annar perluviðburður Krafts á aðventunni en fyrir viku síðan voru 1814 armbönd perluð í Reykjavík.
„Þetta var yndisleg aðventustund og svo gaman að sjá hversu margir komu og perluðu með okkur. Armböndin eru mjög auðveld í samsetningu og því geta allir stórir sem smáir lagt hönd á perlu til að hjálpa okkur að búa til nýju armböndin okkar. Salan á armböndunum er ein helsta fjáröflun okkar og eru öll armböndin perluð af sjálfboðaliðum“, segir Sara, verkefnastjóri Krafts fyrir norðan sem sér um stuðning unga krabbameinsgreinda og aðstandendur á Akureyri og nágrenni.
Kraftur hefur staðið fyrir perluviðburðum víða um land á síðustu tveimur árum en nú var verið að leggja hönd á nýtt armband eins og fyrr greinir. En á viðburðinum gat fólk líka séð heimildarmyndina Lífið er núna sem var gefin út í tilefni af 20 ára afmæli Krafts og tekið af sér ljósmyndir í jólakortið í ár.
„Fólk kom saman og naut þess að vera í núinu og perla með okkur en afmælisarmböndin okkar eru nú komin í sölu á vefnum okkar www.kraftur.org en þau eru til í tveimur stærðum fyrir fullorðna og svo í barnastærð. Frábær jólagjöf fyrir alla sem gefur áfram“, segir Sara enn fremur.
Kraftur vill nota tækifærið og þakka öllum þeim sem lögðu hönd á perlu og þeim sem studdu félagið með einum eða öðrum hætti.
Hér má sjá nokkrar myndir af viðburðinum