VÍS hefur hrundið af stað samfélagsverkefni þar sem viðskiptavinir sem kaupa líf- og sjúkdómatryggingu á netinu hjá þeim geta valið um að styrkja gott málefni í leiðinni. Viðskiptavinirnir geta valið um að styrkja þrjú góðgerðarfélög: Kraft, Hjartaheill eða MS félagið og er styrkurinn þeim að kostnaðarlausu.
Samfélagsverkefnið hljómar þannig að fyrir hverja milljón sem valin er í vátryggingafjárhæð renna 1000 krónur til þess góðgerðarfélags sem viðskiptavinurinn velur. Til dæmis ef viðskiptavinur velur 20 milljón króna líftryggingu og 10 milljón króna sjúkdómatryggingu þá renna 30.000 krónur til félagsins.
„Við viljum styrkja góðgerðarfélög með þessum hætti og nota fjárhæðina til að styrkja þau félög sem tengjast þeim sjúkdómum sem við tryggjum fyrir en eru oft undanskildir ef þeir hafa verið til staðar hjá viðkomandi. Við vonum að styrkurinn nýtist því öfluga starfi sem Kraftur vinnur,“ segir Erla Tryggvadóttir samskiptastjóri hjá VÍS.
„Starfsmenn og stjórn Krafts þakka VÍS innilega fyrir að vera eitt af þeim góðgerðarfélögum sem að fá að njóta góðs af. Það er okkur mikið kappsmál að ungt fólk hugi að líf- og sjúkdómatryggingum áður en veikindi ber að garði því við vitum hvað það getur skipt sköpum í lífi ungs fólks sem greinist með krabbamein að þurfa ekki að hafa fjárhagsáhyggjur,“ segir Elín Sandra Skúladóttir, formaður Krafts.