Bergur Benediktsson fór í byrjun mars í heljarinnar hjólakeppni í Alaska þar sem hann hjólaði um 500 km og safnaði í leiðinni áheitum fyrir Kraft. Hann kom nýverið í heimsókn til okkar í Krafti og afhenti okkur styrk að upphæð 400.000 krónur sem safnaðist með áheitunum.
Bergur er fyrsti Íslendingurinn sem tekur þátt í keppninni Iditarod Trail Invitational sem er af mörgum talin vera ein erfiðasta hjólreiðakeppni sem hægt er að fara í. „Það voru einstaklega erfiðar aðstæður í keppninni í ár og fór frostið alveg niður í -43°C. Ég þurfti að sofa úti eina nótt en annars gat ég gist í skálum og upphituðum tjöldum en þetta var gríðarlega erfitt. Munnurinn á mér var næstum frosinn saman stundum og ég átti erfitt með að koma næringu ofan í mig vegna frostsins en skeggið mitt var eitt stórt grýlukerti á tímabili. Ég þurfti að vera rólegur og á sama tíma þrjóskur og hugsa bara um að halda áfram og gefast ekki upp. Það var aldrei til í stöðunni að hætta,“ sagði Bergur.
Það tók Berg 5 daga og um 20 klukkustundir að hjóla þessa vegalengd í þessum erfiðu aðstæðum en 54 hjólreiðakappar hófu keppni en þriðjungur hætti keppni. Bergur lét hins vegar ekki deigan síga og endaði í 7. sæti og varð fyrsti útlendingurinn í keppninni til að koma í mark. „Nú er orðið meira en mánuður síðan ég kom heim en ég var alveg tvær vikur að ná mér í skrokknum eftir þessu miklu líkamlegu átök. En ég er meira að segja enn skrýtinn í þremur puttum þó það sé yfir mánuður síðan ég kom heim,“ sagði Bergur enn fremur.
„Það er alveg einstakt að fólk leggi svona á sig og að safna áheitum fyrir okkur í Krafti í leiðinni. Bergur ætlar að láta styrkinn renna í FítonsKrafts sem er endurhæfingarhópur í formi hreyfingar og útivistar fyrir unga krabbameinsgreinda. Með endurhæfingunni getum við hjálpað ungu fólki að komast í líkamlegt form eftir meðferð eða á meðan á meðferð stendur og mun styrkurinn svo sannarlega koma sér að góðum notum til að efla það starf,“ sagði Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts við afhendingu styrksins.
Hægt er að sjá myndir frá afreki Bergs á Instagram reikningum hans.
Starfsfólk og stjórn Krafts óskar Bergi til hamingju með þennan frábæra árangur og þökkum honum fyrir eljuna og dugnaðinn og styrkja okkar góða starf í leiðinni. Við þökkum einnig öllum þeim sem hétu á hann og hvöttu hann þannig áfram.