Skip to main content

Hjálpaðu okkur að hjálpa öðrum

By 29. júlí 2020Fréttir

Þrátt fyrir samkomutakmarkanir síðustu mánuði erum við einstaklega ánægð að  Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka 2020 verður haldið laugardaginn 22.ágúst næstkomandi og ætla margir að taka þátt í þessum frábæra viðburði.

Reykjavíkurmaraþonið er einn stærsti fjáröflunarviðburður Krafts og því mikilvægur liður í fjármögnun starfsemi félagins. Kraftur er til staðar fyrir ungt fólk sem er að greinast með krabbamein og aðstandendur, eingöngu vegna velvilja einstaklinga og fyrirtækja á landinu, þar sem félagið nýtur engra opinberra styrkja.

Rúmlega 120 hlauparar hafa nú þegar skráð sig til leiks og ætla að hlaupa af Krafti fyrir málefni sem snertir okkur öll á einn eða annan hátt.

Það er alltaf frábært að finna fyrir velvilja fólksins í samfélaginu og erum við hjá Krafti einstaklega þakklát fyrir hversu margir ætla að sína Krafti stuðning sinn í verki og sendum við þeim góða strauma fyrir hlaupið.

Hægt er að heita á hlauparana inn á hlaupastyrkur.is

Kraftur býður öllum að mæta í Laugardalshöllina á Fit&Run Expo sýninguna, fimmtudaginn 20. og föstudaginn 21. ágúst , en þar munum við afhenda öllum þeim sem ætla að hlaupa fyrir Kraft, smá glaðning ásamt okkar frábæra hlaupabol. Auðvitað verðum við með armböndin til sölu ásamt öðrum af okkar frábæru Lífið er núna vörum.

Á sjálfan hlaupadaginn verðum við með okkar árlegu Hvatningarstöðvar á Ægisíðu við Dunhaga og á Sæbraut við Kirkjusand. Hvetjum við alla sem geta að koma og hvetja hlauparana áfram með brosandi hrópum og köllum, en engar fimmur verða gefnar þetta árið og því ætlum við heldur betur að láta í okkur heyra. Við lofum stórskemmtilegu fjöri.

Hlökkum til að sjá ykkur