Við í Krafti erum óendanlega stolt af þeim 130 konum sem ætla að klífa hæsta tind landsins til styrktar bættum aðbúnaði á nýrri blóð- og krabbameinsdeild Landspítalans sem að margir félagsmenn okkar þurfa að leita til. Þú getur hvatt þessar konur áfram með því að heita á þær og styðja þannig við bakið á verkefninu.
Þann 2. maí ætla þessar vösku konur að ganga upp á Hvannadalshnúk eða Kvennadalshnúk (2110 m). G. Sigríður Ágústsdóttir (Sirrý) og Snjódrífurnar standa að baki þessu átaksverkefni undir nafninu Lífskraftur. Markmiðið er sem fyrr greinir að safna áheitum fyrir bættum aðbúnaði og upplifun einstaklinga sem greints hafa með krabbamein og blóðsjúkdóma á nýrri lyflækningadeild Landspítalans. Á þessari nýju deild munu kraftar og stuðningur styrktarfélaganna Lífs og Krafts skipta sköpum en félögin eru Sirrý mjög kær. Hún er upphafs manneskja átaksins en hún greindist með leghálskrabbamein 2010 og aftur 2015. Í síðara skiptið var ljóst að krabbameinið var krónískt og töldu læknar að hún ætti eitt til þrjú ár eftir ólifað.
Á síðastliðnu ári fékk Sirrý útivistarvinkonur sínar Snjódrífurnar að fagna með sér þeim tímamótum að fimm ár voru liðin frá síðari greiningu með því að ganga yfir Vatnajökul og safna áheitum fyrir Kraft og Líf þar sem söfnuðust 6 milljónir króna. Gangan á Kvennadalshnúk er framhald af því verkefni.
Saman getum við haft áhrif á að bæta aðbúnað fólks sem greinst hefur með krabbamein og blóðsjúkdóma sem og aðstandenda á nýrri deild Landspítalans. Margt smátt gerir eitt stórt.
Hægt er að styðja við Lífskraft með því að senda SMS í símanúmerið 1900
● Sendið textann „LIF1000“ fyrir 1.000 kr.
● Sendið textann „LIF3000“ fyrir 3.000 kr.
● Sendið textann „LIF5000“ fyrir 5.000 kr.
● Sendið textann „LIF10000“ fyrir 10.000 kr.
Einnig er hægt að leggja inn á reikning 1161-26-9900, kt. 501219-0290, eða með AUR appinu í síma 789 4010.
Gætt að verður að sóttvörnum í hvívetna og hefur hópnum verið skipt niður í sóttvarnarhólf.
Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á www.lifskraftur.is á Facebook og Instagramsíðu Lífskrafts þar má fylgjast með göngunni upp á Kvennadalshnúk en þar verða settar inn ljósmyndir jafnóðum.