Þann 11. september stóð Kraftur fyrir hlaupa- og hausthátíð þar sem fólk gat komið og notið haustsins, hlaupið af Krafti í Elliðaárdalnum og hvatt Kraftshlaupara áfram. Tilefnið var að Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 2021 var aflýst og fólk hvatt til að „hlaupa sína leið“ og safna áfram áheitum fyrir góðgerðarfélög.
Mikil stemning myndaðist í Elliðaárdalnum og komu rúmlega 100 manns saman fyrir utan Rafveituheimilið. Búið var að mæla út hlaupaleiðir og merkja þær með blöðrum og hvatningarskiltum og röðuðu klappstýrur sér á ýmsa staði í dalnum til að hvetja hlauparana áfram. Alls hlupu sex manns 21 km leið og var elsti þátttakandinn þar á meðal en sú er 75 ára. Um 20 hlauparar skelltu sér í 10 km hlaup eftir upphitun með Jóni Oddi Sigurðssyni hjá Reebok fitness. Fjöldinn allur af krökkum hljóp svo ásamt nokkrum fylgisveinum í 1 km skemmtiskokkinu.
Þegar allir voru komnir í mark var slegin upp hátíð þar sem Vöffluhlaðborð var í boði Krafts og Vöffluvagnsins, ásamt kaffi, heitu súkkulaði og Gatorade. Stuðpinnarnir úr úr söngleiknum Hlið við Hlið eftir Friðrik Dór skelltu sér líka á svið og tóku nokkur lög fyrir viðstadda.
„Þetta var alveg frábær dagur í alla staði og ótrúlega gaman að sjá svona marga saman komna að njóta útivistar, hreyfingar og að hvetja hlaupara áfram. Svona hátíð væri ekki möguleg nema fyrir sjálfboðaliða og fyrirtæki sem eru tilbúin að leggja okkur lið og vil ég þakka þeim sem og öllum hlaupurum og þeim sem hafa heitið á þau innilega fyrir. Ég minni líka á að enn er hægt að heita á hlaupara sem eru að hlaupa fyrir okkur inn á www.hlaupastyrkur.is en áheitasöfnuninni líkur 20. september næstkomandi,“ sagði Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts eftir hátíðina.