Skip to main content

Kraftmikið Reykjavíkurmaraþon

Reykjavíkurmaraþonið var haldið með glæsibrag um helgina þar sem þúsundir manna hlupu bæði til styrktar góðgerðarfélögum sem og sér til yndisauka. Um 130 hlauparar hlupu af krafti í Reykjavíkurmaraþoninu til stuðnings félaginu og erum við þeim ævinlega þakklát sem og öllum þeim sem hafa heitið á þau.

Áheitasöfnunin fyrir Kraft stendur nú í rúmum 5,7 milljónum króna. Enn er hægt að heita á hlaupara inn á www.hlaupastyrkur.is en áheitasöfnuninni lýkur á miðnætti 22. ágúst. Kraftur er alfarið rekið fyrir velvild almennings og fyrirtækja í landinu og því skiptir fjáröflun sem þessi gríðarlega miklu máli. Það er út af fólki sem ykkur sem við getum verið til staðar fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur.

Allir hvattir áfram af Krafti

Kraftur var með hvatningarstöðvar á tveimur stöðum, eina við Dunhaga og aðra hjá Sólfarinu, til að hvetja hlauparana okkar til dáða. Við viljum nota tækifærið og þakka í leiðinni öllum þeim sem mættu í klappliðið og nutu dagsins með okkur. Einnig settum við upp hvatningarskilti víðsvegar á hlaupaleiðinni til að þakka hlaupurum fyrir að hlaupa af Krafti, hvetja þau áfram og minna þau á að njóta líðandi stundar.

Hér má sjá nokkrar myndir frá Hvatningarstöðvum Krafts.