Fimmtudagskvöldið, 4 nóvember, heldur Kraftur Kraftmikla strákastund á Kexinu. Markmiðið með stundinni er að karlmenn sem hafa verið snertir af krabbameini hvort sem þeir hafa greinst með krabbamein eða eru makar, synir, feður, afar, vinir eða jafnvel samstarfsaðilar hittist, deili reynslu sinni og heyri í öðrum jafningjum.
Einn af hverjum þremur fær krabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni og snertir krabbamein fjöldann allan af aðstandendum þeirra. Það getur verið mjög gott að heyra í öðrum mönnum sem hafa reynsluna og heyra hvernig þeir hafa tæklað hlutina.
Reynsluboltar munu koma og segja frá. Þar á meðal verða Kári Kristján Kristjánsson, landsliðsmaður í handbolta, sem mun segja frá sinni reynslu og sjokkinu við það að greinast tvisvar með æxli í bakinu. Pétur Helgason mun segja frá sinni reynslu en konan hans greindist með brjóstakrabbamein og hélt Pétur fyrst að hann myndi geta græjað allt saman en svo fóru að koma upp óþægilegar tilfinningar, kergja og reiði. Hjörleifur Stefánsson kemur einnig og segir frá sinni reynslu en hann kallar krabbameinið og tilfinningarnar sem hellast yfir mann hlandfötuna. Konan hans hefur tvívegis greinst með brjóstakrabbamein og hafa þau talað tæpitungulaust um krabbameinið og það sem því fylgir við börnin sín og aðra undir #látumdælunaganga. Arnar Sveinn Geirsson mun segja frá því hvernig hann gróf tilfinningar sínar eftir að hann missti mömmu sína úr krabbameini og hvaða áhrif það hefur haft á hann.
Í lok stundarinnar munu Stebbi Jak og Hafþór Valur stíga á stokk og taka nokkur lög.
Matti Osvald Stefánsson, heilsufræðingur og markþjálfi Ljóssins og Þorri Snæbjörnsson, sálfræðingur Krafts og Krabbameinsfélagsins, munu leiða þessa kraftmiklu strákastund. „Við strákarnir erum svo vanir að fara í gegnum erfiða tíma á hnefanum og tölum ekki um hlutina. Það hins vegar kemur bara niður á okkur og fólkinu í kringum okkur seinna. Því er svo nauðsynlegt að hitta aðra í svipuðum sporum sem að skilja mann og því erum við nú að halda þessa strákastund í fyrsta sinn og vonum að sem flestir nýti sér þetta tækifæri,“ segir Matti.
Við mælum með að allir karlmenn komi á þessa flottu strákastund og taki með sér vin eða vandamenn því flestir geta speglað sig í einhverjum af þeim reynsluboltum sem munu stíga fram og segja frá sinni reynslu. Það er ókeypis á viðburðinn en það þarf að skrá sig á hann hér.
Það verður hægt að gæða sér á mat og drykk á Flatus á Kex hostel og það verður skemmtiatriði í boði í lok viðburðar.